Stefnur og straumar í garðhönnun 2020

Updated: Jan 10, 2020


Nú er komið að þeim tíma sem við hjá Urban Beat nýtum til að fara yfir liðið ár og velta fyrir okkur straumum og stefnum nýja ársins. Hvað skyldi einkenna árið 2020? Tískubreytingar í garðhönnun eru frekar hægar samanborið við aðrar tískusveiflur. Garðeigendur skipta ekki eins oft um stíl í garðinum og föt og bíla þótt margir breyti um lit á girðingum og skipti út plöntum. Margt af því sem var flott fyrir 10 árum í garðhönnun þykir því ennþá fallegt. Þó sjáum við árlega breytingar og vísbendingar um hvað verður „heitt“ næstu árin. Vísbendingarnar koma víða að og m.a. frá viðskiptavinum okkar hér á landi og hönnunarverkefnum snillinga úti í heimi. Það eru ýmsar nýjungar á leiðinni og skrifast margar þeirra á breyttan hugsunarhátt og aðrar áherslur en verið hafa undanfarin ár.Að okkar mati mun garðhönnun þessa árs taka mið af breytingum á ferðavenjum fólks, aukinni áherslu á umhverfismál og litapallettu sem inniheldur hlýrri liti en verið hefur. Fjölskyldan verður í fyrirrúmi með meiri áherslu á yngri meðlimina. Náttúrulegt yfirbragð garðsins mun einnig skipa stærri sess. Hvað liti varðar þá hefur „rekaviðargrár“ verið ríkjandi og mun verða það áfram bæði vegna umhverfisþátta og áherslu á lágmarks viðhald. Aðrir litir og tónar munu samt lauma sér þarna inn. Gestagangur, veislur og þörfin til að hitta ættingja og vini eru þættir sem munu hafa áhrif á hönnun garðsins. Garðurinn mun fá aukið notagildi og tekur á sig yfirbragð setu- og borðstofu. Meiri áhersla verður einnig lögð á vellíðan, bæði líkama og sálar. Í fyrra kom kaldi potturinn sterkur inn sem eitt það „heitasta“ og verður hann áfram vinsæll en núna mun hugleiðsluhornið að öllum líkindum bætast við á óskalista margra. Að geta notað garðinn til afþreyingar og íþróttaiðkun verður áberandi. Að lokum munu umhverfismál og þá sérstaklega frárennsli og endurnýting byggingarefna setja mark sitt á árið.


Sumarfríið heima í garði


Margir leita nú leiða til þess að ferðast styttra í sumarfríinu og spara þannig tíma og kolefnisfótspor. Þannig munu margir taka sér hlutverkið „ferðamaður í eigin sveit“. Í sumarfríinu sækja þeir heim söfn, sundstaði og útivistarsvæði auk þess að kynna sér arkitektúr og aðra list í næsta nágrenni, í stað þess að ferðast utanlands. Það er t.d. ekki leiðinlegt að kynnast hinum fjölbreyttu byggingum Guðjóns Samúelssonar sem prýða mörg af eldri svæðum Reykjavíkur. Svo er jafnvel hægt að panta gistingu sem er aðeins í strætó- eða hjólaferðarfjarlægð að heiman. Með svona fríi sparast margir klukkutímar eða jafnvel dagar sem hefðu annars farið í flugvallarhangs og setu í þröngum ferðasætum.En það má ferðast enn styttra og eyða fríinu í eigin garði. Í hraða nútímaþjóðfélagsins gleymist oft að staldra við og draga vel andann þar sem maður er staddur. Til að ýta undir þetta gæti verið skemmtilegur möguleiki að koma sér upp garði sem er ekki síðri en útisvæði strandhótela í suðurhöfum. Ef slíkur garður finnst heima verður ákvörðunin um að eyða sumarfríinu úti í garði auðveld. Svona frí hefur verið í alþjóðlegu umræðunni síðustu ár og kallast á ensku „Staycation“.


Hér koma nokkur ráð til að gera garðinn að betri sumarfrísreit og ýta undir þitt eigið „Staycation“.


• Reistu smáhýsi í garðinum sem hægt er að breyta í gistiherbergi með litlu umstangi. Hámarksstærð smáhýsis í garðinum er nú 15 m2 án sérstaks leyfis.

• Gerðu ráð fyrir þægilegum „kósí“ svæðum með sófum ásamt stórum og mjúkum púðum, hengirúmum og möguleika á eldstæði.

• Útfærðu svæði undir þaki þar sem hægt er að elda og snæða. Með einföldum geislahitara sem festur er upp í þakið má lengja sumarið og taka helgarfrí úti í garði að hausti í stað þess að fara í borgarferð.

• Komdu fyrir þægilegri lýsingu þannig að hægt sé að sitja og eiga skemmtilegar samverustundir langt fram á kvöld. Vatnsheldir hátalarar gætu líka gefið notalega stemningu.Hugað að umhverfinuÁ síðasta ári reið Grétu Thunberg byltingin yfir hinn vestræna heim og mun vonandi hafa gríðarleg áhrif á komandi árum. Endurnýting, betri meðferð á regnvatni og heimaræktun eru einungis hluti þeirra atriða sem koma munu við sögu í umhverfisvænum görðum ársins 2020. Hér á eftir koma punktar yfir það sem má hafa í huga við hönnun garðsins til þess að gera hann sem umhverfisvænstan.


• Endurnotaðu byggingarefni. Steypa heldur áfram að harðna í að minnsta kosti áratug eftir hún er notuð í framleiðslu t.d. á hellum. Þannig eru gamlar hellur oft ekki síðri hvað varðar styrk heldur en nýsteyptar. Mögulega verða gamlar, endurnýttar hellur stöðutákn framtíðarinnar.


• Ætur garður. Grænmetis- og kryddjurtareitir, ávaxtatré og berjarunnar eru einungis hluti af því sem hægt er að gera til að laða fugla og skordýr inn í garðinn. Svo er ekkert sem jafnast á við nýuppteknar kartöflur og heimatilbúna sultu.


• Regnvatn verður æ dýrmætara. Til þess að vernda grunnvatnsstöðu fyrir komandi kynslóðir er nú allra ráða leitað til þess að beina regnvatni aftur ofan í jarðveginn í stað þess að leiða það í lögnum til sjávar. Það má útbúa gegndræpar stéttar og láta yfirborð halla að gróðurbeðum. Svo er tiltölulega auðvelt að safna regnvatni af þökum til að vökva gróðurinn með.


• Lóðréttir garðar. Með því að hengja gróðurpotta á lóðréttar girðingar er hægt að útbúa ræktunarsvæði sem taka mun minna pláss en ella.Athvarf í garðinumNúna þegar raftækin með tilheyrandi áreiti eru alveg að gleypa okkur og varla sést neinn sitja kyrr án þess að vera með síma í hendi, þá hefur þörfin fyrir aflokað einkasvæði aldrei verið meiri. Með því að byggja lítinn vegg, gróðursetja þétta runna eða stilla upp skermum má útbúa svæði þar sem hægt er að njóta þess að vera einn og í eigin hugsunum.


Hér koma nokkrar hugmyndir fyrir slíkt athvarf:


• Rjóður með einu til tveimur hengirúmum.

• Lítill pallur eða lestrarhorn þar sem hægt er að koma fyrir púðum og jafnvel svefnpoka til að sofa í, undir berum himni.

• Stallaður hugleiðslu- og jógapallur þar sem hægt er að koma fyrir luktum og kertum.

• Vetrarskýli með litlu eldstæði og potti þar sem hita má kakó

• Aflokað svæði með fótabaðstjörn.

• Útibaðherbergi með stóru baðkari á fótum og útisturtu.

• Lítið horn með gosbrunni og vatnsheldum hátölurum til að spila hugleiðslutónlist.
Fjölskyldurými þar sem stofan er færð út í garð


Í heitari löndum hefur það þekkst lengi að halda fjölskylduboðin utandyra. Þá eru hús gjarnan hönnuð þannig að inni- og útisvæði fljóti saman. Hér á landi hefur veðráttan sett strik í reikninginn og húseigendur ekki endilega haft trú á því að hægt væri að treysta á útiveru og borðhald hvenær sem er. Með því að byggja skýli og útbúa þau með hitara er hægt að vera úti á nánast hvaða tíma árs sem. Auðvitað þarf einnig að mynda skjól með gróðri og réttri staðsetningu svæðisins.Hér á eftir koma okkur ráð sem geta gert upplifunina á þessum stöðum stórkostlega.

• Gefðu þér tíma til að til að dekka og skreyta borðið áður en gestirnir koma. Ef borðhaldið er á skjólgóðum stað er hægt að gera ýmislegt sem sem gefur stofutilfinningu utanhúss.

• Hafðu svæði í garðinum þar sem börnin og unglingarnir geta komið saman og spjallað, lesið eða spilað.

• Notaðu húsgögn sem eru jafn þægileg og húsgögnin inni.


Dökkir litir og stál
Síðustu árin þá hafa rekaviðargrár, steypugrár og hvítur verið ráðandi litir. Það eru ekki miklar breytingar þar, en litapallettan er að dökkna. Brenndur viður að japönskum hætti og viður málaður nær svartur eru að verða meira áberandi. Líkt og innanhús er hlýleikinn að laumast með í gráa litnum. Þannig er grár farinn að tóna út í aðra liti t.d. brúnan eða grænan. Þetta eru hlýju, gráu litirnir sem maður finnur að eru öðruvísi en þarf að skoða sérstaklega til að vera viss. Svo er ekki ólíklegt að viðarlitir muni aftur ryðja sér til rúms í bland við gráa litapallettu nýja ársins. Stál sem byggingarefni verður einnig æ vinsælla og mun verða meira áberandi. Hvað varðar garðhúsgögn munu bjartir litir verða ráðandi. Stofan færist út á sumrin og þá verður áhersla á litríka púða í sófum og garðhúsgögn í björtum litum. Tágahúsgögn og náttúruleg og umhverfisvæn efni í garðhúsgögnum verða meira áberandi.


Garðhönnun í sýndarveruleikaÞað sem við hjá Urban Beat erum spenntust yfir í byrjun þessa árs eru nýir möguleikar á að hanna og sýna verkefnin okkar. Við höfum tekið tölvuleikjatæknina í okkar þjónustu og nú eru verkefni hönnuð í þrívídd með möguleika á að skoða þau í sýndarveruleika. Rétt fyrir jólin fóru þrír spenntir viðskiptavinir heim með „tölvuleik“ til þess að skoða garðana sína. Þá fá þeir spilanlega skrá á USB-lykli sem þeir geta sett í sína eigin tölvu og síðan gengið og svifið um svæðið með hjálp örvatakanna á tölvunni og músarinnar. Um miðjan janúar munu íbúar Hornafjarðar t.d. fá möguleika á að skoða tillögu að útivistarsvæði á Hrossabithaga sem er opið svæði við hlið tjaldstæðisins. Eins munu þeir sem eru áhugsamir um Urban Flex húsið okkar hafa möguleika á að skoða það í sýndarveruleika og fara heim með tölvuleik til að gang og svífa um húsið í eigin tölvu.


Takk fyrir að fylgjast með okkur og lesa bloggin okkar.

Gleðilegt ár!Recent Posts

See All