top of page

Stefnur og straumar í görðum fyrir 2019 – sex skemmtilegar hugmyndir

Í byrjun nýja ársins er sá tími sem fólk lítur til baka og fer yfir árið sem var að líða. Í mínu starfi getur verið gott að fara yfir árið og sjá hvaða óskir hafa komið fram hjá viðskiptavinum og hvaða stefnur og strauma megi greina í þeim. Tískustraumar breytast hægt í garðinum, það má segja að bylgjurnar gangi yfir á fimm til tíu árum. Ég hef einmitt verið að fara yfir verkefni síðustu fimm til tíu ára til þess að sjá hvaða breytingar hafa orðið í óskum viðskiptavina og þar koma fram ákveðnar vísbendingar um hvað er vinsælast að gera í garðinum. Almennt vill fólk geta eytt meiri tíma í garðinum, byrjað fyrr á vorin og notað hann lengur fram á haust. Annað sem flestir vilja er að hafa viðhaldið á garðinum sem léttast. Fólk vill eyða minni tíma í garðavinnu og meiri tíma í að liggja í sólbaði, fara í heita pottinn, grilla og gæða sér á uppáhaldsdrykknum sínum. En hvaða stefnur og straumar eru það sem verða ríkjandi árið 2019? Hér eru sex skemmtilegar hugmyndir sem líkur eru á að muni sjást 2019.


1. Útieldhús í skjóli frá roki og rigningu


Að elda og borða utandyra þarf ekki að vera bara fyrir fólk sem býr nær miðbaugi. Ég sé fyrir mér að það muni færast í aukana að fólk byggi sér fullbúin útieldhús hér á landi. Mikilvægt er að velja rétta staðsetningu, hafa útieldhúsið í góðu skjóli frá roki og rigningu, til dæmis í grillskála eða undir skyggni og með rafmagnshitara. Þá er gott að það snúi í vestur til að ná kvöldsólinni og líka að aðgengi að húsi sé þægilegt. Kryddjurtir mætti rækta nálægt og svo er margt sem hægt er að hafa í innréttingunni; vask, kæliskáp, snaga fyrir potta og pönnur og svo þarf grillað að sjálfssögðu að vera flott. Weber er kóngurinn í gasgrillum en kolagrill hafa verið að koma aftur inn, sérstaklega „eggin“ frá The Big Green Egg. Þau eru mjög þægileg í notkun, hægt er að stýra hita mjög nákvæmt og elda allt milli himins og jarðar á því. Svo er hægt að fá sér eldofn til þess að baka pizzur og brauð. Það hafa alltaf verið grill í flestum görðum hér á landi en algengt er að það vanti vinnusvæðið. Útieldhús er útbúið með vinnuborðum og jafnvel barborði og stólum þar sem gestir geta setið og spjallað við kokkinn.


2. Rýmri reglur smáhýsi í görðum


Nýlega er búið að rýmka reglur um smáhýsi sem þurfa ekki byggingarleyfi. Þau mega vera allt að 15 fermetrar svo lengi sem þau eru þremur metrum fyrir innan lóðarmörk og þremur metrum frá húsi. Það hefur líka nýverið verið leyft að tengja bæði rafmagn og vatnsleiðslur við smáhýsið. Það er semsagt stærðin og möguleikinn á vatni og rafmagni sem hefur opnað ýmsa möguleika og þetta gæti orðið til þess að allir fái sér smáhýsi í garðinn árið 2019. Möguleikarnir á því hvað hægt er að nota smáhýsi í eru gjörsamlega endalausir; vinnuaðstaða, skrifstofa, smíðaverkstæði, man cave með fullbyggðum bar, bjórbruggaðstaða, spilaherbegi, líkamsrækt, gufubað, sturtuklefi fyrir heita pottinn, setustofa, rauðvínsskáli, gestaherbergi á sumrin, geymsla og svo framvegis og svo framvegis! Með allt að 15 fermetrum að moða úr er mögulegt að hafa pláss fyrir fleiri en einn af þessum hlutum. Sé plássið í garðinum mikið er hægt að hafa fleira en eitt smáhýsi svo lengi sem það eru þrír metrar á milli þeirra.


3. Pergólur til að brjóta vindinn


Orðið pergóla birtist hér á landi á þeim tíma sem Stanislas Bohic byrjaði að hanna garða fyrir Íslendinga. Pergóla er með uppistöður og opið þak með bitum. Hefðbundin pergóla er úr timbri en það er líka hægt að hafa uppistöðurnar úr járni eða kortensstáli (rygðað). Í suðrænni löndum eru þær hugsaðar til að búa til skugga en hafa reynst vel hér á landi til að hjálpa til við að brjóta vind. Vegna þess hversu opnar þær eru þá búa þær ekki til skjól einar og sér en með girðingu og gróðri þá styðja þær við skjólmyndun með því að koma í veg fyrir að það slái niður vindi á svæðinu undir. Sé vindur mikill er hægt að strengja segl yfir eða jafnvel smíða á pergóluna þak. Það er mjög fallegt að láta gróður eins og klifurplöntur vaxa í gegnum pergólu. Eplatré má binda við og láta það vaxa upp eftir bitunum og í gegnum þakið. Svo má týna eplin úr þakinu.


4. Kampavínsveggur og USB tenglar í garðinum


Kampavínsveggur er hugtak sem varð til í hugmyndavinnu sem ég vann með viðskiptavini þegar ég var að teikna veggi við þakíbúð í Stokkhólmi. Kampavínsveggur er einn til einn og tuttugu metrar að hæð þannig að hentugt er að leggja frá sér kampavínsglös, snittur og aðrar veitingar. Þannig er hægt að nota hann bæði fyrir frálegg og sem skilrúm. Veggurinn er ýmist steyptur eða úr timbri og ofan á honum getur verið steinplata eða borð úr hörðum viði. Það getur verið flott að nota sömu klæðningu eða liti og eru í veggjum hússins. Kampavínsveggur er gjarnan breiðari en aðrir veggir, til dæmis þrjátíu sentimetrar. Þetta þýðir að það er mögulegt að nýta breiddina undir innbyggða geymsluskápa eða jafnvel lítinn ísskáp sem myndi nýtast sem kampavínskælir. Fyrst það þarf hvort sem er að tengja rafmagn fyrir ísskápinn væri hægt að hafa usb tengingar og innstungur á veggnum. Þannig er hægt að hlaða símann og tengja hátalara til þess að spila tónlist.


5. Golf og aðrar þróttir


Það að huga vel að heilsunni er að komast meira og meira í tísku. Þeim sem er alvara geta komið sér upp fullkominni líkamsræktaraðstöðu í garðinum. Með skyggni og/eða smáhýsi myndast pláss fyrir róðravél, æfingahjól, stigavél, lyfingabekk, lóð og crossfittarar ættu að njóta sín vel með ketilbjöllurnar sínar. Fyrir fjölskylduvænni íþróttaiðkun er hægt að fella trampólín í jörðina hvort sem það er á gervigrasi, tartan, grasi, palli eða stétt. Skemmtileg hreyfing fyrir börn og fullorðna. Talandi um gervigras þá er það eitthvað sem er mikið að aukast í vinsældum og mun örugglega gera það áfram. Gæðin í gervigrasinu hafa aukist mikið og er hægt að fá gervigras sem líkist venjulegu grasi mikið. Augljós þægindi eru í því að þurfa aldrei að slá blettinn. Þá er líka auðvelt að taka hluta af garðinum undir vandaðan púttvöll. Gervigras er líka hentugt undirlag fyrir íþróttasvæði fyrir börnin þar sem það eru margir möguleikar þegar kemur að mýkt. Heitir pottar hafa verið vinsælir í marga áratugi og eru eiginlega orðnir eins ómissandi í nútímagarði og bílastæðið. Það sem er nýrra og mun örugglega halda áfram að vaxa í vinsældum eru kaldir pottar. Til þess að fullkomna íþróttasvæðið má því skella inn einum köldum potti til þess að kæla sig niður eftir æfingu. Það er almennt talið hollt fyrir blóðrásina að stunda heit og köld böð til skiptis.


6. Grindur fylltar grjóti - GabionÞað er alltaf verið að leita að góðum leiðum til þess að útbúa garðveggi og stoðveggi sem halda við jarðveg. Grjótgrindur hafa skotið upp kollinum í borgarlandslagi Reykjavíkur og mun sennilega sjást enn meir í framtíðinni. Grindur af þessu tagi get þó líka átt heima í einkagörðum. Þær eru mjög nútímalegar í útliti þar sem þær sameina ferkantað fúnkis og náttúruleg efni. Þær grindur sem notaðar eru í umferðarmannvirki eru galvaniseraðar en þær fást líka úr vandaðra efni eins og til dæmis pólýhúað eða úr cortensstáli sem er með ryðguðu útliti. Grjótið sem sett er inn í getur svo verið í hvaða lit eða stærð sem er og þannig er hægt að ná fram þeim áferðum sem fólk vill hafa. Jafnvel er hægt að fá líbarít eða gabbró í stað hefðbundins grágrýtis eða hrauns.


Þegar horft er til framtíðar í garðhönnun má búast við því að á næstu árum muni hún snúast meira um umhverfisvænar lausnir. Þar má nefna regngarða sem taka við yfirborðsvatni af lóðum, vatnssöfnun af þökum sem er svo notað til að vökva garðinn, eða jafnvel í tjarnir. Þannig er allt vatn notað í stað þess að veita því í burtu og minnkar þetta þá álag á fráveitukerfið auk þess að vera náttúrulegra og umhverfisvænna. Í öðrum löndum, til dæmis Svíþjóð, er farið að reikna grænstuðul lóða og bygginga og má þá búast við því að þök og svalir fái grænna yfirbragð á næstu árum líka.

Takk fyrir að lesa :-)

Recent Posts

See All
bottom of page