top of page

Straumar og stefnur í görðum 2024


Nú er komið að því að spá fyrir um áherslur í garðhönnun 2024. Tíska í garðhönnun sveiflast ofurhægt, enda miðast framkvæmdir yfirleitt við notkunina næstu 20-30 árin. Því eiga allar hugmyndinar frá því í fyrra við, https://www.urbanbeat.is/post/straumar-og-stefnur-2023, en þá fjölluðum við um kryddjurtabari, trúnóbekki, útieldhús, íþróttasvæði og krakkaholur. Til viðbótar við þetta eru áberandi breytingar að eiga sér stað og flestar þeirra snúa að meira notagildi, heilsu, sjálfbærni og endurnýtingu. Aðrar snúa að skemmtilegum hugmyndum um liti og nýstárlegar útfærslur.


Blokkargarðar fá uppreisn æru


Garðarnir sem hafa setið á hakanum síðustu árin eru garðar fjölbýlishúsa. Byggingaverktakar hafa alla jafna gengið frá lóðum á sem einfaldastan hátt með bílastæðum og grasflöt. Nú er kominn tími til þess að blokkarbúar fái jafnmikil lífsgæði í sínum görðum og sérbýliseigendur. Hlutar þessara lóða verða girtir af til þess að hægt sé að leyfa börnum að hlaupa um áhyggjulaust. Gróðri verður plantað og skjólveggir reistir til þess að útbúa hlý sólarsvæði sem snúa mót suðri. Útieldhús, gróðurhús og svæði til að snæða verða brátt ómissandi hluti góðrar blokkarlóðar.


Allt í rusli


Rusl og flokkun þess mun hafa mikil áhrif á garðhönnun árið 2024 þar sem öll sveitarfélög eru að rembast við að ná utan um þessi mál. Um leið og sorprennum í blokkum verður lokað munu húsfélög koma sér upp öflugri sorpflokkunaraðstöðum ýmist í litlum húsum á lóð eða í djúpgámum neðanjarðar. Í sérbýlum mun sorpflokkun að hluta til færast í geymslur út í garði og losa þannig pláss innandyra.


Gamlar hellur og fúgur í forgrunni

Með meiri áherslu á endurnýtingu og hringrásarhagkerfið verður áhersla á að nýta frekar en að henda. Samkvæmt rannsóknum heldur steypa áfram að styrkjast með aldri og eru því gamlar hellur ekki endilega síðri en nýjar. Þróun á fúguefni fyrir hellur eru á fleygiferð og hér á landi er m.a. verið að skoða þara sem íblöndunarefni í fúgur en í þaranum er alginate sem bindur sandinn í fúgunni. Þannig má taka gömlu hellurnar upp, laga undirlagið og leggja þær í nýju munstri með fúgum sem fjúka ekki burtu.


Litir að mýkjast


Litapalletan utandyra tekur gjarnan mið af þróun innanhúss. Þannig eru litir að taka á sig jarðbundnari blæ og byggingarefni að verða veðruð í útliti. Nú er einnig hægt að fá nákvæmari litablöndur fyrir girðingar og því fleiri blæbrigði í litapallettum.


Grasflatir og blómaengi sem miðdepill


Að lokum þá sjáum við að í okkar hönnun er grasflötin að verða miðdepill. Pallarnir og stéttarnar umlykja gjarnan grassvæði sem sláttuvélmenni sjá um að hirða. Önnur grassvæði fá að vaxa og eru slegin einu sinni á ári þannig að úr verði fagurt blómaengi.



Takk fyrir að lesa :-)



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page