top of page
Nútímalegur garður með palli.

Eitt helsta umræðuefnið varðandi palla er langlífi efna. Ef það er eitthvað sem kúnnarnir mínir vilja ekki þá er það að þurfa að endurbyggja pallinn eftir 15-20 ár. Á útisvæðinu í þessum reykvíska garði er lögð áhersla á lokuð svæði og endingargóð byggingarefni. Harðviður þekur pallinn og steyptir veggir í stíl við húsið veita skjól.

 

Viðurinn sem notaður er í þennan pall heitir Bankirai, harðviður frá Indónesíu, varinn með litaðri viðarvörn svo hann upplitist ekki í sólinni. Þessi viðartegund gefur djúpan gamaldagslit sem einkennir endingagóðar viðartegundir eins og t.d. mahóní.

 

Skjólveggirnir í kringum pallinn eru steyptir og málaðir hvítir, sem gefur manni þá tilfinningu að útisvæðið sé framlenging af húsinu. Veggirnir eru líka brotnir upp með runnum eins og sýrenum til þess að veita mótsögn við hart yfirborð steypunnar. Með þessu samspili gróðurs og steypu verður heildarsvipurinn viðrulegri með aldrinum.

 

Í Reykjavík er næg uppspretta af ódýru hitaveituvatni og eru aðstæður því fullkomnar fyrir heitan pott í garðinn. Þessi pottur rúmar átta manns þægilega og allt að tólf manns sem eru til í að troða sér aðeins. Á bak við háan vegginn hefur potturinn algjört næði. 

 

Utanfrá eru veggirnir að hluta til faldir á bakvið sígræna runna en þeir hlutar sem eru sjáanlegir ýta undir nútímalegt útlit hússins.
 

Á þessum skjólsæla palli getur fólk á öllum aldri skemmt sér við að spila.

bottom of page