top of page
Heitur pottur og pallur 

Þegar mamma spurði hvort ég gæti ekki hannað pottasvæði fyrir vinkonu sína svaraði ég „að sjálfssögðu“. Ég var nýfluttur heim frá Gloucesterhéraði í suðurhluta Englands þar sem ég lærði landslagsarkitektúr og útskrifaðist 1994. Það var ekki auðvelt að vekja á sér athygli og heilmikið vesen að verða sér úti um hönnunarverkefni. Ég var nýr í geiranum og auglýsingar voru litnar hornauga af samtökum landslangsarkitekta. Það var ekki til þess að auðvelda mér að finna verkefni. Á þessu tíma, snemma á tíunda áratugnum, var internetið ekki orðið útbreitt og hvað þá þau öflugu tól samfélagsmiðla sem komu síðar. Fyrstu verkefnin fékk ég því í gegnum vini og kunningja sem síðan þróuðust yfir í meðmælendur. Fyrir vinnuna rukkaði ég lága peningaupphæð og stóra flösku af viskíi.

 

Mamma og vinkonan voru saman í saumaklúbbi. Fundir í klúbbnum voru haldnir einu sinni í mánuði og skiptust meðlimir á að bjóða heim til sín. Aðalmarkmiðið með hönnun heita pottsins var að allir 12 meðlimir saumaklúbbsins yrðu að komast fyrir í pottinum á sama tíma. Ef ég man rétt þá var nú eitthvað lítið um saumaskap á þessum fundum, enda snérust þeir meira um það að hafa afsökun til þess að hittast og slúðra yfir kaffi og kökum. Skjólstæðingur minn myndi halda þessa fundi einu sinni á ári og þeir ættu þá að hefjast í pottinum. 

 

Pott sem rúmaði 12 manns þurfti að sérpanta og varð marmarablár 3.000 lítra kringlóttur pottur fyrir valinu. Vegna þess að potturinn átti að vera staðsettur í niðurgröfnum hluta bakgarðsins var nánast ógerlegt að koma stórum vinnutækjum að svæðinu. Að leggja grunn fyrir steyptan pall var því út úr myndinni svo lausnin var timburpallur. Í stíl við kringlótta pottinn var smíðaður hringlaga bekkur sem nýtist sem setsvæði. Einnig er pláss fyrir sólstóla á svæðinu á milli potts og hraunveggjar sem var þar fyrir. 
 

Enn í dag, 20 árum síðar, finnst mér þessi hönnun á litlum afskekktum palli með potti og hringlaga bekk standa fyrir sínu. 

bottom of page