top of page
Villtur garður í útjaðri Reykjavíkur

Sumarið er tíminn sem ég fer á kreik með myndavélina í þeim tilgangi að taka myndir af verkefnum sem hafa verið kláruð á síðustu árum. Stundum þarf mikla þolinmæði í að bíða eftir réttu veðri og birtu. Bestu aðstæðurnar eru þegar það er örlítið skýjað, nóg til þess að milda skugga en ekki svo mikið að stemningin verði drungaleg. Stundum verður maður einfaldlega að taka sénsinn, drífa sig af stað og vona að veðurguðirnir verði með manni í liði þann daginn, þó ekki sé nema í örfáar mínútur. Heppnin var með mér þegar ég heimsótti þennan garð í útjaðri Reykjavíkur. Þetta er eitt þeirra verkefna sem á sérstakan stað í hjarta mínu og hefur verið í þróun í nærri áratug. Það sem við skjólstæðingurinn lögðum upp með í hönnuninni var að halda í villt einkenni umhverfisins og vekja áhuga hjá ungum jafnt sem öldnum á því að kanna umhverfið þar sem ýmislegt óvænt er að finna. Svæðið er ekki alveg tibúið enn og stóru klettarnir með fossinum verða kláraðir á næstu árum. Þrátt fyrir það er margt spennandi að sjá, svo komdu með mér í smá ferðalag!

 

Hafir þú heyrt um álfa, eða jafnvel verið svo heppinn að hitta einn, þá er ljóst að þetta er réttur staður til þess að leita þá uppi. Áður en húsið var byggt var framan við reitinn lítill hóll af þeirri gerð sem íslenskir álfar hafa í gegnum tíðina kosið að búa í. Í kringum hólinn vex blóðberg annar heiðagróður. Þessi villti gróður var snögglega friðlýstur af lóðareiganda og landslagsarkitekti (undirrituðum) og samningur gerður við álfana. Fram að þessu hefur ekki verið tilkynnt um undarleg atvik eða hrekki sem rekja má til álfanna á svæðinu og villtu blómin eru litrík sem aldrei fyrr.
 

Að sjálfssögðu er enginn bakgarður fullkomnaður án þess að það séu hænur, samkvæmt mínum glaðværa skjólstæðingi. Þessar litríku landnámshænur fá að reika frjálsar um og heilsa gestum með lágu gaggi. Fyrir utan það að vera einstaklega heillandi þá bera þær líka virkilega gómsæt egg í bú.

 

Þessi flottu hænsnahús eru hönnuð í anda gömlu torfkofanna með hefðbundinni „en på
to“ klæðningu. Við hliðina á hænsnakofunum er fullkomlega mótuð varða úr skornu hrauni. Vörður hafa bjargað mörgum mannslífum hér áður fyrr þegar fólk lagði í hættulegar ferðir yfir mýrar og heiðar. Þú getur því verið öruggur um að villast aldrei í þessum garði. 
 

Skyggnið framan við húsið býr til notalegt lítið svæði sem snýr í austur og er því hitað upp af morgunsólinni. Ég hef oft haldið því fram að í rokinu og rigningunni hér á landi ætti að vera skilda að hafa svæði á borð við þetta við öll hús. 

 

Mest áberandi mannvirkið í bakgarðinum er nýi „pottunarskálinn“ sem einnig nýtist sem sólskáli snemma á vorin. Við hliðina á honum, umkringdur stuðlabergi, er lítill kartöflugarður. Stóru sígrænu trén þar á bak við mynda skjól fyrir köldum vindum sem oft eru ríkjandi á sólardögum í Reykjavík.

 

Ofan á gömlu akkeri sitja álfar og slaka á. Fleiri félaga þeirra má finna hér og þar í garðinum. Þeirra hlutverk er að sjá til þess að gestir séu ekki í fýlu og að gleðja íbúana.

 

Og að sjálfssögðu, síðast en ekki síst, matjurtagarðurinn með kryddjurtum og grænmeti sem ræktað er í beðum til þess að auðvelda vinnuna. Ég vona að þið hafið notið þess að skoða myndir úr þessum líflega garði sem kemur sífellt á óvart.
 

bottom of page