top of page

Útilýsing í görðum

Á norðurhveli jarðar, þar sem vetrarnætur eru langar og sumarið óþarflega stutt, getur góð garðlýsing fjölgað íverustundunum. Á kvöldin þegar skyggja tekur má nýta lykilsvæði í garðinum til að snæða, skrafa saman eða eiga notalegar samverustundir á annan hátt, t.d. í heita pottinum. Það verður auðveldara að ganga um garðinn, sem getur jafnvel fengið ævintýraljóma, og stuttar rómantískar gönguferðir verða mögulegar allan ársins hring. Góð lýsing getur einnig haft áhrif á útsýni frá gluggum og í mörgum tilfellum stækkað stofu, eldhús eða önnur herbergi húss. Stærsta hlutverk lýsingar í garði er þó í aðkomunni. Íbúar geta komið heim í fallegri birtu hvenær sem er sólarhringsins, lagt bílnum á þægilegan hátt, gengið að útidyrunum og hitt örugglega með lykli í skráargatið.



Aðkoma og innkeyrsla

Aðgengi að útidyrum þarf að vera gott á öllum tímum dags og allan ársins hring. Með góðri staðsetningu ljósa á veggjum húss, nálægt götu eða við stíga og bílastæði verður auðvelt að athafna sig á leið að húsi. Margir staðir og margar tegundir ljósa koma til greina en nokkur lykilatriði þarf að hafa í huga. Áður en ný ljós eru valin og staðsett þarf að skoða hvaða lýsing er þegar til staðar. Ljósastaurar við götu geta veitt ljósi inn í garðinn og eins geta ljós sem eru á húsinu lýst upp hluta aðkomusvæðisins. Í aðkomunni má skipta lýsingunni í þrjár tegundir: Lága, háa og óbeina. Lág lýsing getur lýst upp yfirborð stíga og innkeyrslu þannig að gott sé að rata um svæðið. Há lýsing er gagnleg á þann hátt að sá sem stígur út úr bíl eða gengur að húsi getur séð hendurnar á sér og því opnað dyr og séð vel allt það sem borið er inn eða út. Óbein lýsing eykur hins vegar heildarbirtu og með því að beina ljósi að veggjum, gróðri eða skilgreindum svæðum má fá fram endurkast til þess að lýsa upp nálæg svæði.



Dvalarsvæðið

Dvalarsvæðið er stofa garðsins og þar má leggja áherslu á að bæta þægindi, mynda skjól og auka lýsingu og fjölga þannig mögulegum tómstundum. Þá nýtist þessi hluti garðsins vel á kvöldin þegar dagarnir eru styttri, t.d. fyrir hvíldarstundir í heita pottinum. Dvalarsvæðið er líka oft það svæði sem sést hvað best innan úr húsinu og er lýsingin því mikilvæg til að tengja saman íbúðarrými innandyra og tímabundin dvalarrými utandyra. Þar skiptir máli að lýsing valdi ekki óþægindum, skeri ekki í augu og flæði ekki mikið inn á nærliggjandi svæði. Oft er því gott að hafa ljós neðarlega þannig að áherslan sé á að lýsa upp yfirborðið svæðisins og lágan gróður í jaðri þess. Á þeim svæðum þar sem mikilvægt er að sjá vel til, t.d. við matborðið, má hafa ljós ofan við augnhæð. Þá getur verið gott að miða við rúmlega tveggja metra hæð og leita að tækifæri til þess að hafa ljós á veggjum, í þakköntum eða á háum staurum. Ef ljós eru sett í þakkanta þarf að huga vel að nálægum gluggum því að ljós sem skín beint inn um glugga getur verið óþægilegt. Grundvallarreglan er því sú að hafa ljós í þakköntum á milli glugga. Ef dvalarsvæði sést vel út um glugga í húsi má setja ljós í garð með tilliti til útsýnis þaðan. Þá eru skilgreind þau svæði sem verða hluti útsýnisins, þau lýst upp og skuggasvæðin látin eiga sig til þess að skilin milli ljóss og myrkurs verði skýrari. Þetta undirstrikar heildarmyndina sem getur gert útsýni úr stofu að listaverki.



Stígar

Mikilvægt er að hægt sé að komast um garðinn allan ársins hring, sérstaklega ef aukainngangar eru á húsinu. Stígar tengja saman svæði og því er mikilvægt að huga vel að lýsingu þeirra. Góð lýsing getur undirstrikað liti og form stíganna þannig að upplifunin verði allt önnur á kvöldin en daginn. Þetta er best gert með lágri lýsingu sem lýsir upp stíginn sjálfan, yfirborð hans og útlínur. Til þess að undirstrika formin má setja öll ljósin sömu megin en þá mynda þau línu sem endurspeglar form stígsins. Þannig verða mjúk form bogadregins stígs meira áberandi og skörp form kantaðs stígs að sama skapi skýrari. Ef draga á úr þessum formum og mynda meiri heildarljóma má setja ljós beggja vegna stígsins. Með dreifðri birtu má beina athyglinni að útliti og umgjörð stíganna frekar en að formi og lögun ljósanna.





Hvað á að lýsa upp?

Í vel hönnuðum garði eru margir staðir sem vel getur farið á að lýsa upp. Meðal þeirra eru staðir með fallegum runnagróðri, trjágróðri, tjörnum, steinum eða listaverkum. Fallegan gróður má gera enn meira áberandi með því að beina ljósi beint á hann, en einnig með því að baklýsa. Baklýsing felst í því að lýsa upp fleti á bak við áberandi hlut, t.d. formfallegan runna, og skerpa þannig útlínur hans. Einnig má lýsa gróður neðan frá og undirstrika þannig formin í neðri hluta hans. Ef lýsingunni er beint að runna eða tré er þess virði að huga einnig að skuggavarpinu því greinarnar geta myndað listaverk ljóss og skugga. Til að ná þessum áhrifum eru ljóskastarar hentugir en með þeim verða skilin á milli ljóss og skugga skarpari en með ljósum sem dreifa birtunni. Ef tré stendur nálægt vegg og ljósi er kastað að því varpast skuggarnir á vegginn og form og munstur greinanna verða eins og teikning.




Tegundir ljósa

Úrval ljósa er mikið og gæðaflokkar misjafnir, bæði hvað varðar endingu og útlit. Við val á ljósum þarf að huga að því hvernig ljósið lítur út á kvöldin þegar kveikt er á því og einnig á daginn þegar slökkt er. Form, litir og umgjörð lampanna geta verið fallega útfærð frá framleiðanda og þá verða lamparnir að sérstöku atriði í hönnun garðsins. Þannig geta köntuð ljós undirstrikað köntuð form í garði og ljós með mjúkum línum endurspeglað bogadregin form svæða, stíga og gróðurs. Mörg garðljós eru framleidd til þess að falla inn í veggi. Þau eru þá lítið áberandi á daginn en varpa fallegri birtu á kvöldin. Einnig eru til margar tegundir af staurum með fjölbreytt útlit og í mismunandi lengdum. Eftir því sem ljós er hærra, því meiri verður lýsingin frá hverju ljósi. Ef lýsa á upp svæði með sem fæstum ljósum borgar sig að hafa þau hátt uppi. Þetta á bæði við um stauralýsingu og ljós sem fest eru á veggi. Á íþróttavöllum eru ljósin hátt uppi, bæði til að minnka líkurnar á að leikmenn og áhorfendur þurfi að horfa beint í ljósið og einnig til þess að hver staur nái að lýsa upp sem stærst svæði. Sama gildir um lýsingu í garði og ef lýsing á fyrst og fremst að vera nytsamleg má hafa ljósin færri og hafa þau hærra.




Að lokum er vert að minnast á sveigjanlegri lausnir. Þannig geta innstungur í garðinum komið að góðum notum fyrir jólaljós og einnig fyrir ljós sem eru í beðum og gert er ráð fyrir að flytja til eftir því sem gróður vex. Þegar mikið stendur til í garðinum má nota olíuljós og kyndla því opinn eldur gefur rómantísk hughrif og þægilega tilfinningu sem erfitt er að ná með raflýsingu.


1. Eftir því sem ljósastaurar eru hærri, því stærra svæði lýsa þeir upp.

2. Sumir ljósastaurar eru hannaðir til þess að beina geislum sínum á vel skilgreind svæði.

3. Innkeyrsla lýst upp með ljósum sem beinir birtunni á afmarkað svæði í stað þess að dreifa henni.

4. Innkeyrsla lýst upp með lágum ljósum sem dreifa birtunni.

5. Innkeyrsla lýst upp með háum ljósum sem dreifa birtunni vel. Hér þarf því fá ljós.

Stóra teikningin: Með vel skipulagðri lýsingu má gera aðkomuna fallega og fá betri nýtingu úr dvalarsvæðunum.




Recent Posts

See All

Comments


bottom of page