top of page

Fimm spennandi útfærslur fyrir smáhýsi í garðinum

Updated: Mar 17, 2023


Einhvern tímann var mér sagt að það eigi aldrei að alhæfa, en það er þó staðreynd að fólk vantar alltaf meira pláss. Vantar þig fleiri herbergi til þess að sinna vinnu eða áhugamálum, er stöðugt rifist yfir fullri geymslu og bílskúr eða nær baðsvæði garðsins ekki að njóta sín nógu vel? Hvert sem vandamálið er þá getur fallegt smáhýsi í garði verið frábær lausn. Smáhýsi er, eins og nafnið gefur til kynna, lítið hús sem komið er fyrir úti í garði. Þetta eru einskonar garðskálar en notkunarmöguleikarnir eru endalausir.


Hér eru fimm hugmyndir að leiðum til þess að nýta þessa auka fermetra.



Skrifstofa í ró og næði

Þeir sem vinna heima þekkja það hvað góð aðstaða getur skipt miklu máli. Það er staðreynd að maður kemur fleiru í verk hafi maður ró og frið. Það er gott að geta aðskilið sig aðeins frá heimilinu til þess að fá þessa tilfinningu að nú sé maður kominn í vinnugírinn og endi ekki óvart á að taka úr uppþvottavélinni í staðinn fyrir að byrja að vinna. Smáhýsi getur verið frábær staðsetning fyrir skrifstofu þar sem það er aðskilið frá húsinu og næðið er því mikið.



Smíðað og spilað í frístundaskála

Dreymir þig um að eiga „man cave“? Stundum vantar einfaldlega pláss til þess að leika sér, stað til þess að setjast niður með bjór og spila. Í smáhýsinu er hægt að vera með bjórkæli eða jafnvel setja upp alvöru bar og bjórdælur. Þá er samt ennþá pláss fyrir bridge- eða pókerborð og pílukast. Eða hægindastóla og sjónvarp þar sem hægt er að horfa á leikinn. Sum áhugamál eru plássfrekari en önnur en hanna má smáhýsi í kringum þau öll. Það er hægt að tengja vatn og rafmagn í smáhýsið svo það gæti nýst sem bruggaðstaða fyrir bjóráhugamanninn. Smíðaverkstæði myndi nýtast mörgum þar sem pláss er fyrir öll verkfæri og enginn sem pirrar sig á sagi sem kannski flýgur aðeins um. Fyrir þá sem stunda líkamsrækt af krafti, eða þá sem langar til þess að byrja, er hægt að koma fyrir hlaupabretti, lóðum og lyftingarbekk, jafnvel gufubaði og sturtuklefa.



Horft á sólarlagið úr rauðvínsskála

Margir kannast við það að kvöldin í garðinum gætu nýst betur. Það kólnar með kvöldinu og oft lætur fólk sig hverfa inn um leið og sólin fer fyrir hornið. Í staðinn fyrir að fara inn í stofu er hægt að færa sig í rauðvínsskálann því það er kominn tími til að opna eina flösku. Fyrir þá sem vilja heldur kaldan drykk er hægt að hafa kæliskáp fyrir rósavínið og gosið. Ein hlið skálans getur verið rennihurð sem opnast alla leið. Þá er hægt er að anda að sér ferska útiloftinu á sama tíma og maður nýtur þeirra þæginda sem fylgja því að vera inni. Maður getur horft á íslenska sumarhimininn eins lengi og vínið endist.


Það er oft um kvöldmatarleitið sem kólnar hratt og þá getur rauðvínsskálinn eða svæðið í kring nýst sem borðstofa. Hér er tilvalið að hafa gott skyggni með hitara, þar sem koma má upp útieldhúsi. Hvað passar betur með rauðvíni en grilluð steik? Á sumrin er jafnvel hægt að bjóða gestum að gista í skálanum svo enginn þarf að hafa áhyggjur af því þó ein flaska í viðbót sé mögulega óvart opnuð.



Gufubað, sturta og búningsherbergi

Kofi með gufubaði er ekki bara fyrir frændur okkar Finna. Hægt er að smíða smáhýsi utan um gufubað sem á að vera úti í garði. Fyrir þá sem eru með heitan pott getur smáhýsi verið góð viðbót við baðsvæði garðsins. Sé heiti potturinn langt frá húsi, og ekki áhugi á að nota útisturtu, getur smáhýsið nýst undir sturtuklefa. Það er líka tilvalið að hafa þar aðstöðu til þess að skipta í og úr sundfötum og ef til vill salerni. Jafnvel er hægt að koma þessu öllu fyrir í einu smáhýsi; gufubaði, surtu og búningsklefa. Baðsvæði með heitum og köldum potti og smáhýsi með gufubaði, sturtuklefa og lítilli setustofu. Það gerist ekki betra.




Geymsla fyrir jeppadekkin og fullorðinsleikföngin

Kosti þess að hafa auka geymslupláss þarf vart að útskýra fyrir neinum. Smáhýsið er staðsett úti í garði svo það er hentugt að nota það til þess að geyma sláttuvélina og garðáhöldin fyrir sumarverkin og snjómokstursgræjurnar fyrir veturinn. Útileikföngin ættu líka að komast fyrir, hvort sem það er fjalla- mótor- eða fjórhjól, eða allt þrennt. Jeppadekkin taka svo sitt pláss. Stundum þarf að vinna aðeins í leikföngunum og þá er pláss fyrir öll verkfærin líka í smáhýsinu.



15 fm smáhýsi þurfa ekki byggingaleyfi

Nýlega er búið að rýmka reglur um smáhýsi sem ekki þurfa byggingarleyfi. Þau mega vera allt að 15 fm að stærð en eru háð reglum um staðsetningu sem Mannvirkjastofnun hefur gefið út. Þar er gert ráð fyrir að þau séu þremur metrum fyrir innan lóðarmörk og þremur metrum frá íbúðarhúsi. Ef smáhýsið er nær lóðarmörkum en 3 m þarf samþykki eiganda aðliggjandi lóðar. Hámarkshæð þaks er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs. Ef ætlunin er að hafa fleiri en eitt smáhýsi þurfa þrír metrar að vera á milli þeirra. Smáhýsin eru ekki ætluð til gistingar eða búsetu. Það má því leiða líkur að því að ekki mega hafa innbyggt ofnakerfi og ekki megi skrá lögheimili í smáhýsi.


Takk fyrir að lesa :-)


Recent Posts

See All
bottom of page