top of page

Garðar fyrir hunda

Updated: Feb 10, 2020

Hundaeigendur eru oft á þeirri skoðun að erfitt sé að halda garðinum fallegum og snyrtilegum. Heittelskaðir loðboltarnir vilja samt stundum nýta garðinn með öðrum hætti en eigendurnir hefðu helst kosið, róta og grafa og jafnvel naga fínu plönturnar okkar. Er eitthvað annað til ráða en að anda djúpt og vona það besta? Með góðri hönnun er hægt að gera garðinn að paradís fyrir hunda og menn. En hvað myndir þú vilja gera í garðinum þínum ef þú værir hundur?


Hundar hafa ákveðnar grunnþarfir en eru mjög misjafnir eftir tegundum, stærð, aldri og persónuleika. Smáhundur þarf þannig ekki á jafnhárri girðingu að halda og stærri tegundir, sumir hundar hafa gaman af að grafa og róta, gamall hundur vill kannski flatmaga á pallinum með eigendum sínum á meðan yngri hundur vill góða grasflöt til að hlaupa, velta sér og leika með fólkinu sínu og öðrum hundum.


Þegar kemur að yfirborði garðsins þá gildir svipað um hunda, hesta og börn, mjúkt yfirborð eins og gras er bæði þægilegt og endingargott. Og mosinn vex síður þar sem mikið er um hlaup og leiki sem ætti nú að gleðja marga. Sumir kjósa að hafa afmarkað svæði með gervigrasi, sérstaklega þeir sem eru með marga hunda, en nú er hægt að fá mjög gott og mjúkt gervigras. Þegar kemur að salernissvæði fyrir hundinn ætti möl í mýkri kantinum sem auðvelt er að hreinsa að henta best.


Gera þarf ráð fyrir því að hundurinn sé velkominn bæði á svæði þar sem hann getur legið í sólinni og að hann hafi aðgang að stað þar sem hann getur lagt sig í skugga og kælt sig. Þar mætti koma fyrir góðu bæli. Stórar, blaðmiklar plöntur sem þola smá ágang eru þægilegar til að leggja sig undir en svo er líka nauðsynlegt að gera ráð fyrir góðu aðgengi að vatni fyrir hundinn. Falleg skál getur bæði þjónað sem vatnsskál og garðskraut, lítill gosbrunnur eða tjörn eða þá stærri tjörn fyrir þá sem eiga hunda sem hafa gaman af smá baði og vatnsleikjum, ýmsar skemmtilegar lausnir eru til.Nauðsynlegt er að huga vel að lokun garðsins svo hundurinn sleppi ekki út. Venjulegar skjólgirðingar eru flestar hundheldar og eins geta runnar gert mikið til að loka af. Það má t.d. hugsa sér einfalda netagirðingu með gróðri eða jafnvel netagirðingu staðsetta milli tveggja runnaraða. Ytri röðin gæti samanstaðið af hávöxnum runnum eins og birki og sú innri af fjallarifsi eða öðrum lágvaxnari tegundum. Síðan kæmi netagirðing á milli sem jafnvel mætti fjarlægja síðar þegar runnarnir eru hundheldir. Í dag eru fáanlegar góðar grindur sem jafnvel má klippa niður og búa til ramma í þeim stærðum sem að henta hundi og eiganda sbr. https://www.girding.is/vorur/grindargirdingar. Margir kjósa að hundurinn hafi ekki góða sýn út á göngustíga eða yfir til nágranna ef honum hættir til að gelta á þá sem eru á ferð. Þá er nauðsynlegt að skoða hvernig best er að draga úr útsýni í hæð hundsins og jafnvel dempa hljóð.


Garðurinn þarf þannig að vera öruggur fyrir hundinn. Því þarf einnig að gæta þess að í garðinum séu ekki hlutir sem hundurinn getur slasað sig á, eitraðar plöntur eða plöntur með stórum þyrnum. En hundurinn þarf líka nauðsynlega á hreyfingu og tilbreytingu að halda og margir nefna að hundurinn þeirra sé ólíklegri til að fara að skemma og tæta ef hann hefur nóg við að vera. Þó að ég hafi ekki hannað hundaleiksvæði ennþá þá má hugsa sér alls kyns skemmtileg leiktæki á mjúkri grasflöt, rör, vegasalt og fleira sem tilheyrir hundafimi, frisbí og boltaleiki, feluleiki bak við runna og fleira skemmtilegt.


Það hefur færst í aukana að garðeigendur biðja mig um að gera ráð fyrir hundunum sínum við hönnun garðsins sem er mjög skemmtilegt. Það verður auðvitað að gera ráð fyrir að allir fjölskyldumeðlimir geti nýtt sér garðinn til útiveru. Ég sé fyrir mér að meira verði um hönnun á görðum í framtíðinni þar sem gert er ráð fyrir dýrum og þá ekki aðeins hundum. Til dæmis er orðið töluvert algengt að fólk sé með hænur uppi í sumarbústað, kattaeigendur vilja oft gjarnan geta hleypt köttunum sínum út án þess að þeir fari á þvæling og síðan eru sumir eru með kanínur sem gaman er að gera ráð fyrir við hönnun garðsins. Margir garðeigendur hafa ánægju af því að laða til sín fugla í garðinn með æti og skjóli og þótt þeir eigi sumir ekki dýr sjálfir er skemmtilegt að útbúa góða aðstöðu fyrir fuglana og fá þannig í leiðinni fuglasöng og líf og fjör í garðinn.


Takk fyrir að lesa :-)


Recent Posts

See All

Comments


bottom of page