top of page

Garðar við blokkir – ný framtíðarsýn

Updated: Mar 7



Þegar ég horfi út af svölunum niður á auðu grasflötina fyrir aftan blokkina get ég ekki annað en fyllst öfund út í þá sem eiga gróðursælan garð með palli, útieldhúsi og hengirúmi. Hvað ef allir í blokkinni gætu komið sér saman um að gera útisvæðið þannig að maður vildi miklu frekar vera úti í garði, heldur en inni fyrir framan skjáinn? Væri ekki geggjað að geta farið út í garð, lyft nokkrum ketilbjöllum, skellt sér svo í gufuna og grillað í vel útbúnu útieldhúsi? Svo þegar sólin færi að síga myndi maður færa sig á kvöldsvæðið, kveikja upp í útiarninum og sitja þar og kjafta við fjölskyldu og vini fram eftir kvöldi.


En hver segir að þetta sé ekki hægt? Hér á eftir ætla ég að fara yfir hvað þarf til þess að blokkarlóðin geti orðið að vin fyrir alla íbúana.


Afþreying fyrir alla


Það þurfa allir að hafa eitthvað við sitt hæfi. Börnin þurfa leiksvæði og foreldrar þurfa setsvæði þar sem auðvelt er að fylgjast með börnunum. Það þurfa að vera góðir og sléttir stígar þannig að allir geti fengið sér göngutúr auk þess sem spræka liðið þarf svæði til að gera meira krefjandi æfingar. Unglingarnir þurfa sitt svæði til að hanga og gera þarf ráð fyrir að þeir sem vilji geti ræktað kryddjurtir og grænmeti. Svo þarf að sjálfsögðu fjölnota grasflatir fyrir boltaleiki, kubb og krokket.


Samkomustaður hússins

Það er ekkert sem sameinar fólk betur en matur og því er útieldhús eða grillskýli alveg ómissandi. Þar má líka vera nóg af sætum, bæði undir þaki og undir berum himni. Föst borð og bekkir, færanlegir sófar og massív langborð eru bara hluti þess sem getur gert veislurnar úti ógleymanlegar. Að mínu mati er þó lykilatriði að útbúa gott skjól með veggjum og gróðri auk þess að útbúa þak yfir hluta svæðanna. Þannig þarf smá rigning ekki að verða til þess að allir flýi aftur inn.


Aflokaðir staðir fyrir alla tíma dags


Sól og skjól er þau tvö orð sem oftast bera á góma þegar íslenskir garðar eru ræddir. Yfirleitt er sólin á mismunandi stöðum, allt eftir tíma dags og því þess virði að skipuleggja svæði fyir morgunkaffið, daginn og kvöldið. Svo þarf með hjálp gróðurs, skjólveggja og jafnvel hóla að mynda skjól fyrir þessi svæði. Það skiptir líka máli að garðurinn og svæðin innan hans fái að vera í friði fyrir forvitnum augum og umferð almennings. Því þarf að skýla þessum svæðum og jafnvel garðinum öllum og gera þannig að einkasvæði þeirra sem búa í blokkinni.


Enn lengra út fyrir kassann

Heitur pottur, kaldur, gufubað og útisturta er kombó ársins í einkagörðum. Það er aðeins meira flækjustig við þetta í blokk heldur en við einbýli en með því að loka af svæði innan garðsins mætti alveg skoða þessi mannvirki. Það er t.d. hægt að vera með gufubað sem íbúar hússins geta fengið lykil að og bókað tíma eftir samkomulagi.



Hvað þarf til?

Til þess að þetta geti orðið að veruleika þarf góða hönnun sem styður við skjólmyndun og útfærir vel allar þær skemmtilegu hugmyndir sem íbúar hússins sjá fyrir sér. En þá er ekki öll sagan sögð því svona verkefni þarf að fjármagna. Það er enginn vafi í mínum huga að ef vel er að verki staðið þá muni verðmæti íbúðanna í húsinu hækka í samræmi við það sem svona garður kostar. Því væri eðlilegast að fjármagna framkvæmdir í gegnum húsfélagið og athuga hvort einhver banki vildi ekki bjóða upp á garðalán fyrir fjölbýlishús.


Takk fyrir að lesa :-)


Recent Posts

See All
bottom of page