Í garðinum er hægt að útbúa draumaaðstöðu fyrir íþróttafólk og þeirra fjölskyldu. Það eru ekki allir sem vilja bara liggja og slaka á í garðinum sínum. Sumir skemmta sér best þegar þeir eru á fullri ferð og vilja helst eyða frítímanum í alls konar íþróttir og leiki. Fullorðnir jafnt sem börn gætu nýtt sér það að hafa möguleika á að stunda boltaleiki, risaútiskák, klifursport og margt fleira sér til skemmtunar. Aðrir eru kannski á fullu í alvöru æfingarprógrammi, stunda crossfit af krafti eða eru að undirbúa þátttöku í næsta Reykjavíkurmaraþoni. Svo eru það þeir sem stunda reglulega líkamsrækt heilsunnar vegna en finnst of mikill tími fara í það að keyra í og úr ræktinni. Hægt er að hanna allan garðinn utan um íþróttaiðkun eða tileinka ákveðin svæði af honum áhugamálum garðeiganda. Utandyraíþróttir geta verið allt frá sveittum körfuboltaleik og yfir í afslappað pútt eða skák. Til þess að geta stundað sína uppáhaldsíþrótt í garðinum er misjafnt hvað fólk þarf að hafa. Hér eru nokkrar leiðir til þess að koma íþróttunum að í garðinum.
Íþróttavöllur í garðinum
Það eru margar leiðir til þess að búa til íþróttavöll í garðinum og misjafnt hversu mikið púður er lagt í það. Sumir þurfa einfaldlega sléttan grasbala því hann má nota í svo margt. Þar er hægt að fara í leiki eins og stórfiskaleik og fallna spýtu eða stilla upp fyrir kubb og krokket. Lítil færanleg mörk breyta grasinu í fínasta fótboltavöll og svo má vera með körfuboltakörfu á hjólum fyrir leiki sem ekki þarf að drippla í, eins og til dæmis asna. Alvöru körfuboltavelli má líka útfæra í einkagarði. Malbik er algengasta undirlagið fyrir þá því það er ódýrt og mýkra en steypa og hellur. Fyrir suma dugir að hafa eina körfu í innkeyrslunni til þess að eiga þar margar sveittar en skemmtilegar stundir. Það er þó líka hægt að nota tartan með mjög þéttu undirlagi og útbúa heilan völl með tveimur körfum. Gervigras hefur vaxið mikið í vinsældum nýlega enda hafa gæðin á því breyst mikið undanfarin tvö ár eða svo. Það er alveg tilvalið fyrir pútt- eða minigolfvöll.
Græjur og dót
Það eru alls konar skemmtilegar græjur og dót sem hægt er að fá sér í garðinn sem þarf ekki endilega að nota heilan völl undir. Trampólín geta haft ofan af fyrir börnum heilu dagana en þau má líka nota í fantagóða líkamsrækt. Hægt er að fella trampólín niður í gras, gervigras, tartan, pall eða stétt. Almenningsæfingatæki hafa verið að skjóta upp kollinum um allan bæ í Reykjavík og þess konar tækjum má líka koma fyrir í einkagarði. Upphífingar taka á öllum vöðvum líkamans og þeim sem stunda þær af krafti er lofað magavöðvum fyrir allan peninginn. Það er hægt að smíða grind með misháum upphífingarstöngum sem svo getur líka virkað sem klifurgrind. Þeir sem elska að klifra geta líka reist sér alvöru klifurvegg. Skák er líka íþrótt og þeir sem eru fyrir hugarleikfimina geta fengið sér risaútiskák.
Þitt eigið sporthús
Smáhýsi þurfa ekki byggingarleyfi ef þau uppfylla kröfur Mannvirkjastofnunar um að vera þrjá metra frá lóðarmörkum og húsi. Þau mega vera allt að 15 fermetrar og það má tengja rafmagn og vatnsleiðslur. Smáhýsi af þessu tagi getur þú breytt í þitt eigið sporthús með hlaupabretti, æfingarhjóli, róðravél, lyftingabekk og ketilbjöllum. YouTube er stútfullt af góðum æfingamyndböndum svo það gæti verið gott að hafa flatskjá á veggnum. Það er líka alveg nauðsynlegt að vera með góða hátalara og græjur til þess að spila hressa tónlist á meðan maður æfir. Vatnsleiðslurnar má nota til þess að hafa krana með ísköldu vatni, sturtuklefa og jafnvel gufubað til þess að mýkja vöðvana eftir æfingar. Svo er pláss til þess að hafa aðstöðu til þess að skipta um föt. Utan á smáhýsinu má svo vera með skyggni sem myndar svæði sem hægt er að nota fyrir allskonar æfingar, jóga eða crossfit, og til að teygja eftir útihlaup. Jafnvel má koma fyrir stólum þar sem áhorfendur geta setið með drykk í hönd og dæmt boltaleikinn sem fer fram á grasflötinni. Fyrir veiðimanninn sem er staðsettur nálægt veiðisvæðum, til dæmis í sumarbústað, er hægt að nota smáhýsi sem veiðikofa. Þar er hægt að geyma veiðigræjurnar, skipta í og úr skítugum veiðigalla og hnýta flugur.
Eftir hamaganginn þarf að kæla sig niður
Eftir útihlaup og annan hamagang er gott að skella sér í kaldan pott til að kæla sig niður. Sjósund og kaldir pottar njóta sívaxandi vinsælda. Hvort sem þú hefur lagt í það að prófa sjósund eða ekki þá hefur þú örugglega heyrt af því hvað kaldur pottur er frábær fyrir heilsuna. Þeir geta staðið einir og sér en eru líka flott viðbót við baðsvæði með heitum potti eða við hliðina á smáhýsi með gufubaði. Það er nefnilega talið mjög gott fyrir blóðrásina að stunda heit og köld böð til skiptis. Á baðsvæðinu má líka skoða að setja upp útisturtu fyrir íþróttafólkið. Fyrir þá sem hafa nóg pláss er ekki út úr myndinni að steypa sundlaug sem hægt er að æfa í. Hún þyrfti að vera tveir til þrír metrar að breidd og fimmtán metrar að lengd til þess að nýtast í sundæfingar.
Lokaorð
Hvaða íþrótt það er sem þú stundar, þá er ljóst að möguleikinn á að stunda hana í þínum eigin garði er til staðar. Nema kannski ef þú stundar fallhlífarstökk eða brimbretti. Sértu meira fyrir boltaleiki og hefðbundnari líkamsrækt þá er ekki vitlaust að skoða það hvernig best er að hanna garðinn þinn með það í huga. Komdu golffélögunum á óvart með óaðfinnanlegum púttleik eftir allar æfingarnar í garðinum. Komdu þér í frábært form eða viðhaltu því sem þú ert nú þegar í í þinni eigin einkalíkamsræktarstöð. Bjóddu félögunum yfir í körfuboltaleik sem endar svo með köldum bjór undir skyggninu. Kenndu krökkunum skák á útiskákvelli eða leyfðu þeim að losna við aukaorkuna á trampólíni. Fólk á öllum aldri getur sameinast í skemmtilegu leikjum eins og kubb. Endaðu svo daginn á böðum í köldum potti á milli þess sem þú hlýjar þér í gufubaði.
Góða skemmtun og takk fyrir að lesa :-)
Comments