Garður sem þarfnast lítils viðhalds er draumagarður margra minna viðskiptavina. Að geta slakað á í heita pottinum án þess að hafa samviskubit yfir beðum troðfullum af arfa eða mannhæðarháu grasi. Væri ekki frábært ef garðurinn þinn væri hannaður þannig að vinnu við hann væri haldið í lágmarki? Og þú fengir þannig meiri tíma til að halda grillpartí fyrir nágrannana eða fara í fótbolta með krökkunum? Flestir vilja eyða tíma sínum í garðinum í afslöppun og tómstundir, ekki vinnu. Ýmsar leiðir eru færar til að minnka viðhald garðsins og mig langar að fjalla aðeins um þær.
Sjálfvirk sláttuvél eða pall úr trefjaefni
Það sem helst dregur úr viðhaldi garðsins er að auka hlutfall af hörðu yfirborði og stendur valið yfirleitt á milli steinsteypu, hellna og trépalls. Ég vil líka benda á að grasflatir geta verið þægilegar í viðhaldi séu þær hannaðar með það í huga. Það sama á við um gróður. Nútímalegar lausnir eru til dæmis gervigras, sjálfvirkar sláttuvélar og trefjaefni á palla. Svo er alltaf mögulegt að einfaldlega ráða einhvern annan til þess að sjá um vinnuna fyrir sig. Í því samhengi getur verið gott að bera saman stofnkostnað og viðhaldskostnað. Pallar og hellur geta kostað sitt og þeim fylgir líka ákveðið viðhald svo það er ekki alltaf besta lausnin að losa sig við allt grasið fyrir pall. Síðan gefur auga leið að litlir garðar þurfa vanalega minna viðhald heldur en stórir.
Partí á pallinum
Trépallar hafa marga kosti og hafa lengi verið vinsælir. Þeir hafa hlýlegt yfirborð sem er fljótt að hitna í sólinni og geta þannig aukið notkun garðsins á heitum sumardögum. Þeir eru líka fljótir að þorna eftir rigningar, bæði vegna þess að rigningin hripar vel niður milli klæðningarborða og síðan hrindir vel varinn viður frá sér bleytu. Trépallar henta því afar vel við heita pottinn. Þar sem fjörug börn eru á ferðinni er mjúkt yfirborð trépallsins mikill kostur og hentar því mjög vel leikja. Trépallar geta verið mjög fjölbreyttir í lögun og formi og mismunandi að stærð. Sumir eru sáttir með pláss fyrir tvo sólstóla á meðan aðrir vilja geta haldið ættarmót á pallinum.
Liturinn getur skipt máli
Trépallar þurfa ákveðið viðhald. Þegar pallurinn er smíðaður skiptir máli að það lofti um grindina, því það kemur í veg fyrir að raki sitji á timbrinu og minnkar líkur á fúa. Gott er að bera á pallinn á eins til tveggja ára fresti. Yfirleitt er notuð viðarvörn með litlu litarmagni, en liturinn minnkar áhrif sólarljóss á viðinn og er eins konar sólarvörn. Ef mikill litur er í viðarvörninni geta slitfletir á palli orðið áberandi. Grái liturinn sem hefur verið í tísku undanfarið fæst með því að leyfa sólarljósinu að upplita pallinn. Gagnvarin fura er algengasta efnið í pallagerð, hún er bæði ódýrust og auðvelt að vinna með hana. Lerki og harðviður eru einnig í boði og að lokum má nefna ýmis konar viðarlíki sem gjarnan er að uppistöðu úr trefjaplasti. Þar sem mikilvægt er að viðhald sé í lágmarki getur plast verið hagstætt en það er yfirleitt gert úr endurunnum efnum.
Rekaviðargrátt lerki eða grjóthart Bangkirai?
Á pall úr furu þarf að bera viðarvörn til þess að verja slitfleti og annað yfirborð. Aðrar timburtegundir þurfa svipað viðhald nema tekin sé ákvörðun um að láta yfirborðið grána. Bæði lerki og ýmsar harðviðartegundir hafa þann eiginleika að gráminn, sem myndast af verkun sólarljóssins, nær aðeins til ysta lagsins. Þannig er yfirborðið grátt en innviðirnir halda sínum eiginleikum. Steypugrái liturinn sem kemur á pallinn á þó ekki alls staðar við og því þurfa þessar timburtegundir oft sama viðhald og furan. Það er auðvelt að lita furuna því hún drekkur vel í sig liti. Greni og lerki, sem bæði teljast til mjúkra viðartegunda, hafa svipaða eiginleika. Lerkið er þó frábrugðið að því leyti að þegar það er sagað lokast æðarnar í viðnum og ver það hann fyrir raka. Ýmsar harðviðartegundir hafa verið notaðar í yfirborð palla, t.d. Bangkirai frá Indónesíu og Masaranduba frá Brasilíu. Einnig hafa eik, mahóní eða beyki verið notuð, en þessar tegundir þarf oftast að sérpanta í gegnum timbursölur. Með því að nota harðvið næst fram óvenjuleg áferð og litir með meiri dýpt þar sem útlit timbursins skín í gegnum viðarvörnina. Þegar unnið er með harðvið þarf að nota sérstök blöð í sagir og bora til að bora fyrir skrúfum og festingum. Ending framkvæmda úr harðviði er gjarnan lengri og viðurinn hefur sérstakan blæ sem tilkominn er vegna sýnilegra æða í viðnum.
www.byko.is
Stórar hellur og grófur sandur í fúgur
Hellulagnir geta auðveldað viðhald og um leið sett mikinn svip á garðinn en steyptar hellur og timbur eru algengustu yfirborðsefnin á dvalarsvæði. Hellur má fá í ýmsum stærðum og gerðum og er úrvalið mjög fjölbreytt. Hellurnar sjálfar þurfa lítið viðhald en það getur þurft að hreinsa yfirborð og fúgur. Einnig getur verið gott að skipta út sandi í fúgum en það er gert með því að hreinsa með kraftmikilli vatnsbunu og sópa svo nýjum sandi í. Því stærri sem hellurnar eru minnkar magnið af fúgum en mestu máli skiptir þó að þær séu fúgaðar rétt. Í stað þess að nota aðeins pússningarsand sem fýkur í burtu þegar hann er þurr, er hægt að nota grófari sand sem þjappast betur í fúgurnar. Þegar fúgur eru hreinsaðar með háþrýstidælu þarf að sanda á eftir, annars getur lífrænt efni úr umhverfinu, lauf, mold og gras, auðveldlega fyllt upp í eyðurnar.
Svo má líka steypa veröndina
Húseigendur geta einnig valið um hellulagðar eða steyptar stéttir. Þeir sem velja að steypa frekar en að helluleggja gera það af mismunandi ástæðum, en ein þeirra er að koma í veg fyrir að mosi og gróður vaxi í fúgum. Með þessu er viðhald í lágmarki því ekki þarf að skafa kanta eða hreinsa úr fúgum eins og algengt er með hellur. Skrautsteypu þarf að sílanbera svo upphaflegt útlit haldi sér. Nú er algengt að nota steypu sem er slípuð og svo eru söguð í hana þenslubil sem mynda mynstur.
www.bmvalla.is
Hringlaga grasflatir eru auðveldastaar
Þó svo að garðsláttur sé í litlu uppáhaldi hjá mörgum þá getur góð grasflöt verið auðveld í viðhaldi. Atriði sem mestu skipta varðandi viðhald grasflata eru halli, lögun og hvernig gróður er valinn og staðsettur við flötina. Ef mikill halli er á flöt getur sláttur verið erfiður og því þess virði að nota léttar sláttuvélar eða vélorf. Auðveldustu grasflatirnar eru hringlaga og lausar við gróður í miðjunni. Á slíkri flöt þarf aldrei að bakka með vélina. Því mýkri sem formin eru og færri skörp horn, því þægilegra er að slá. Ef runnar næst grasflötum eru þéttir að neðan má leyfa grasflötinni að renna undir gróðurinn og sleppa þannig við kantskurð. Gróður í beði á miðri grasflöt kallar á aukið viðhald en einnig getur trjá- og runnagróður á grasflöt myndað skugga sem getur ýtt undir vöxt mosa.
Láttu róbottinn sjá um málið
En til hvers að slá grasið sjálfur þegar þú getur látið vélmenni um það? Mörg fyrirtæki eru farin að framleiða slátturóbota og má þar nefna Honda, Husqvarna og John Deere en tegundirnar eru mun fleiri. Þetta er eins og að vera með Roomba úti í garði. Þeir sem vilja ekki að þurfa að slá grasið í garðinum yfir höfuð ættu líka að skoða möguleikana í gervigrasi. Það hefur vaxið í vinsældum í einkagörðum undanfarið enda hafa gæðin aukist mikið á síðustu tveimur árum. Í dag er hægt að fá fallegt gervigras og augljóslega fylgir þeim mjög lítið viðhald.
Þéttir runnar sem þekja vel
Flestir vilja hafa gróður í garðinum sínum, líka fólk sem ekki vill þurfa að sinna viðhaldi. Til þess að losna við að reita arfa er best að velja þétta runna, til dæmis rifsplöntur, hélurifs og kirtilrifs. Þær laufgast mjög snemma, þekja vel moldina og kom þannig í veg fyrrir að arfi vaxi upp. Best er að planta þeim þannig að beð séu vel þakin. Þá kemst birtan síður að moldinni og við þær aðstæður vex illgresi síður og umhirða beða minnkar mikið.
Að leyfa öðrum að sjá um viðhaldið
Síðast en ekki síst er vel þess virði að skoða kosti þess að láta aðra sjá um viðhald garðsins. Hugsaðu þér að þurfa ekki að lyfta litlafingri en vera með garð í toppstandi allt sumarið! Ég heyrði í honum Brynjari Kærnested hjá Garðlist og spurði hann út í kostnað við að fá þjónustu frá þeim. Hann gaf mér dæmi um 700 fm garð. Sé grasflötin slegin í 7 skipti yfir sumarið kostar hvert skipti 11.780 kr. Heildarkostnaður er þá 82.460 kr. yfir sumarið.
Ef við miðum við að garðurinn sé þrifinn þrisvar yfir sumarið er tímagjald fyrir beðahreinsun 6.076 kr. með vsk. Í meðalgarði taka slík þrif um 15 tíma en sorphirða og akstursgjald er 10.000 kr. Því kostar hver hreinsun 101.140 kr. og kostnaður yfir sumarið er þá 303.420 kr.
Heildarkostnaður við að halda garðinum óaðfinnanlegum allt sumarið er þá 385.880 kr. með vsk. Að láta fagmenn sjá um viðhaldið er kostur sem sífellt fleiri eru að velja.
www.gardlist.is
Takk fyrir að lesa :-)
Comments