top of page

Ertu klár í næsta sumar? - Garður teiknaður að vetri

Updated: Mar 21, 2023

Veturinn er langsamlega besti tíminn til þess að láta teikna garðinn. Þá gefst góður tími í að velta upp hugmyndum og vinna úr þeim. Á veturna má líka semja við verktaka og framkvæma hluta verksins þannig að það fari ekki allt sumarið í framkvæmdir.



Garður án teikningar


Að hanna garð án skipulagðrar teikningar er svipað og að elda flókinn rétt án uppskriftar. Ekkert er til að styðjast við nema eigin tilfinning og reynsla. Vissulega getur útkoman orðið mjög góð en því fylgir nokkur óvissa. Til að forðast óhöpp er mönnum ráðlagt að fylgja uppskriftinni (teikningunni) nokkuð nákvæmlega þó að persónuleg notkun á kryddi geti reyndar verið af hinu góða.


Horft á sólarlagið úr hengirólu




Þeir sem láta teikna garðinn sinn hafa af því ávinning á fleiri en einn hátt. Í fyrsta lagi fá þeir í hendurnar teikningu af garði þar sem þeirra eigin óskir spila saman með ferskum hugmyndum hönnuðarins. Væri ekki spennandi að horfa á sólarlagið úr hengirólu á veröndinni, ylja sér við útiarin eða busla í heitum potti? Hverjar eru þínar óskir? Viltu stóra verönd, tvöfalt bílastæði, göngustíga, matjurtagarð eða leiksvæði fyrir börnin? Viltu fallegan ævintýrareit sem tekur sífellt á sig nýjan svip eftir árstíðum? Möguleikarnir eru óendanlegir og öruggt að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.


Lítill arfi og létt viðhald





Margir eru þreyttir á að eyða frístundum sínum í að reyta arfa og hreinsa til í gömlum garði. Aðrir standa frammi fyrir nýjum og ómótuðum garði og vita ekki á hverju best er að byrja. Það er misjafnt hversu mikla vinnu fólk kýs að leggja í garðinn. Með því að skipuleggja hann frá upphafi er hægt að létta viðhaldið og njóta garðsins liggjandi í sólbaði í góða veðrinu.


Fallegur gróður allt árið




Vel skipulagður runnagróður hugsar nánast um sig sjálfur. Með því að þekja beðin vel með réttum gróðri kemst sólarljós síður að moldinni og vaxtarskilyrði fyrir illgresi verða mjög léleg. Galdurinn er svo að blanda runnategundum saman á þann hátt að allt árið sé eitthvað spennandi að gerast. Sígrænn gróður fyrir veturinn, fallegt blómskrúð á vorin og sumrin og skrautlegir haustlitir er hluti af því sem góð garðteikning getur fært þér.


Skjólgóð útivistarsvæði



Eitt af því sem gerir íslenskum garðeigendum lífið leitt er rokið. Mikilvægt er að staðsetja skjólveggi og runnagróður rétt til að beina vindinum frá. Þannig fást skjólgóð útivistarsvæði sem geta framlengt sumarið og með því að skipta garðinum upp í fleiri en eitt svæði má nýta sólina til hins ýtrasta. Morgunsvæði þar sem morgunsólin er ráðandi og kvöldsvæði þar sem notast er við síðustu sólargeisla dagsins eru meðal þess sem hönnuðurinn tekur tillit til við gerð teikningar. Til að skapa stemningu og öryggi þegar dimma tekur er hægt að gæða garðinn ævintýraljóma með vel staðsettri lýsingu. Með réttri skipulagningu má því lengja þann tíma sem spennandi hlutir gerast í garðinum.


Samspil við hús og umhverfi


Þegar komið er að velja hráefnið í garðinn eru möguleikarnir endalausir. Í yfirborð má nota hellur, trépalla, gras, möl og margt fleira. Garðyrkjustöðvarnar bjóða upp á nokkur hundruð tegundir plantna til að skreyta með og veita skjól. Þetta þarf að spila skemmtilega saman með því sem á að vera í garðinum eins og heitum potti, þvottasnúrum og hengirúminu góða. Ef vandað er til verksins er hægt að ná fallegu samspili milli svæða í garðinum, við húsið og umhverfið.



Góð teikning sparar peninga


Það getur sparað þér mikinn tíma og umtalsverða peninga að hafa nákvæma teikningu af garðinum þínum til að afhenda verktökum. Öll samskipti við þá verða skýrari. Þú getur gert kostnaðaráætlun og notað teikninguna til að semja við verktaka auk þess að ákveða hversu hratt garðurinn er unninn. Iðnaðarmennirnir geta gengið beint í verkið og allt liggur ljóst fyrir. Ekkert þarf að endurvinna vegna þess að skilaboð til verktaka voru ekki nógu skýr í upphafi. Komi upp spurningar má alltaf kalla hönnuð garðsins á staðinn. Fáir gera sér grein fyrir að kostnaðurinn við gerð garðateikningar er í raun ekki nema um 3-8% af heildarverði framkvæmdanna. Því fæst þóknun hönnuðarins yfirleitt öll til baka með hagræðingunni sem verður við verkið.


Eftirfylgni á verkstað



Urban Beat er í samstarfi við Garðaþjónustuna þína og vísar gjarnan verkefnum til þeirra, en þeir eru sérhæfðir í að halda utan um stór og flókin verkefni og eru með færa gröfukalla, smiði, hellulagninga- og hleðslumenn. Sami pípulagningamaður kemur að öllum verkefnum og þeir Askur og Helgi hjá Neista sjá gjarnan um öll ljós og annað rafmagnstengt. Ef samningar takast við Garðaþjónustuna þína fylgir vikuleg heimsókn landslagsarkitekts með eftirfylgni á verkstað á meðan verkefnið er í gangi. Þar eru þau mál sem upp koma í framkvæmdinni leyst.



Vandaðu til verksins með góðri uppskrift






Af framansögðu er ljóst að rétt uppbyggður réttur þar sem öll nauðsynleg hráefni spila saman á skemmtilegan hátt fer best í maga og gleður augað. Það sama gildir um garðinn þinn. Sé vandað til verksins og uppskriftin góð er öruggt að þú munt eiga margar veislustundir í garðinum þínum.


Takk fyrir að lesa :-)




Recent Posts

See All
bottom of page