top of page

Gróðurhús hugmyndanna

Updated: Mar 17, 2023

Hvernig væri að geta farið út í garð þegar vorið er rétt handan við hornið? Gróðurhús verða sífellt vinsælli meðal garðeigenda og margir sjá í þeim spennandi möguleika til að byrja að nota garðinn fyrr á vorin og eins lengur fram eftir hausti. Þau má nýta til ræktunar og þannig til aukinnar sjálfbærni með því að rækta matvæli til eigin nota. Sumarblómin, kryddjurtirnar, ávaxtatrén, alls kyns framandi gróður heilla marga með græna fingur.


Gróðurhús í ýmsum gerðum og stærðum


Til eru köld eða upphituð gróðurhús, stór, lítil og sum eru bara litlir ræktunarskápar. Fyrir þá sem ætla sér stóra hluti í ræktun er nauðsynlegt að kynna sér tæknimál eins og loftun, stýringu hitastigs og fleira. En gróðurhús eru alls ekki aðeins fyrir plöntur heldur henta þau fyrir margs kyns skemmtilega afþreyingu. Gróðurhús eru nefnilega mikilvæg í nútímagörðum sem garðskálar og fyrir marga eru þau útivistarsvæði sem gefa garðinum nýja vídd og auka notkunarmöguleika hans svo um munar.


Morgunbollinn, bröns og yogadýnan


Hver vill ekki geta rölt með morgunkaffið út í hlýtt gróðurhús þar sem notalegur hægindastóll bíður og njóta þar morgunsins á meðan snjórinn fellur fyrir utan. Viltu kasta þér í þægilegan sófa eða fá þér blund í hengirúmi? Eða bjóða saumaklúbbnum í bröns úti í gróðurhúsi þar sem uppdekkað borð bíður umkringt fallegum plöntum? Rafmagn í gróðurhúsinu bíður upp á tónlist og skemmtilega lýsingu svo stemningin geti enst langt fram á kvöld.


Sumir kjósa að nýta gróðurhúsið sem lítið yogastúdíó og innrétta það sem slíkt. Aðrir nota birtuna og hafa þar myndlistaraðstöðu. Líkamsæfingar, lestrarkrókur, hugleiðsluhorn, hobbíherbergi, kaffihúsastemning! Möguleikarnir eru ótal margir. Staður þar sem sitja má einn með sjálfum sér eða eiga gæðastund með fjölskyldunni eftir annasaman dag er ekki slæmur kostur. Og óvíða er betra að slaka á, í sínum eigin heimi og hlusta á vindinn.




Útivera innandyra


Frelsistilfinningin sem fylgir útiveru skilar sér vel yfir í gróðurhúsið. Og sumarfríið heima í garði verður ný upplifun þar sem liggja má í gróðurhúsinu í sólbaði með suðræna tónlist í eyrum. Margir njóta þess að borða undir berum himni erlendis og þá fáu daga sem veður leyfir hér heima, en þarna er kominn frábær staður til að borða úti hvernig sem viðrar. Lautarferð með börnin út í gróðurhús með teppi og nesti er spennandi kostur fyrir smáfólkið og útheimtir ekki löng ferðalög og litlir fingur hafa gaman af því að aðstoða við að rækta tómata og fleira spennandi. Fjölskyldan getur svo sannarlega átt þarna skemmtilegt athvarf.


Gróðurhús framlengir íbúðarrýmið


Sniðugt er að hugsa gróðurhúsið sem framlengingu á húsinu en síðustu ár hefur sú hugsun að tengja saman innviði heimilis og garðs verið áberandi trend í garðhönnun. Samspil húss og garðs og skipting garðsins upp í herbergi með mismunandi tilgang er mikilvæg og þar kemur gróðurhúsið sterkt inn. Ef ætlunin er að láta það þjóna tvöföldum tilgangi, þ.e. til ræktunar- og sem samverustað, er ráðlegt að hafa gróðurhúsið það stórt að bæði sé pláss fyrir plöntur, borð og stóla.



Staðsetning gróðurhússins


En hvar á að staðsetja gróðurhúsið? Er það aðallega hugsað til ræktunar eða er kostur að hafa það nálægt húsinu svo fljótlegt sé að skjótast á milli með veitingar í garðskálaveisluna? Á gróðurhúsið að vera hluti af pallinum eða hljóðlátt afdrep í horni garðsins? Útsýnið frá gróðurhúsinu er eitthvað sem þarf að hugsa um en það má gjarnan vera yfir gróðursælt svæði eða hafa fallega yfirsýn yfir náttúru eða borg. Staðsetningin getur einnig ráðist af stærð garðsins og því hvar pláss er að finna. Stundum hentar best að hafa gróðurhúsið áfast húsinu en gott er ef gróðurhúsið nýtur sólar allt árið um kring, sérstaklega ef helsti tilgangurinn er ræktun. Heppilegt er að láta framhliðina snúa í suður eða vestur þannig að sólar njóti sem mest við innganginn en svæðið fyrir framan gróðurhúsið getur nýst sem sólpallur eða vinnusvæði með umpottunaraðstöðu og upphækkuðum ræktunarkössum. Gróðurhúsið sjálft má líka nota til þess að mynda skjól í garðinum í samspili við skjólveggi og önnur mannvirki.



Eitthvað fyrir alla: Jón Bergsson eða BK Hönnun?


Glerskálar geta komið sér vel þar sem vindasamt er og útsýni fallegt, til dæmis við sjávarsíðuna. Kringlóttur glerskáli með opnanlegum hliðum allan hringinn getur hentað þar vel. Sumir kjósa einnig að hafa heita pottinn undir gleri og geta þannig notið þess að slaka á í pottinum í hvaða veðri sem er. Hjá Jóni Bergssyni fást svokallaðar garðkúlur en þær eru í tveimur hlutum sem hægt er að snúa og láta op kúlunnar fylgja sólinni eða snúa kúlunni upp í vindinn til að fá skjól.




BK Hönnun ehf. er söluaðili á fallegum og vönduðum gróðurhúsum af ýmsum stærðum og gerðum sem gefið hafa góða reynslu hér á landi. Á heimasíðu þeirra má finna þrívíddar hönnunartól þar sem hægt er að setja saman gróðurhús upp á eigin spítur og skoða ýmsa möguleika og útfærslur. Það er vel þess virði að skoða þennan möguleika og kíkja á fjölbreytt úrvalið hjá þeim.


Gróðurhús eru spennandi staðir sem nýtast á margvíslegan hátt. Þú uppskerð ekki aðeins matjurtir og ávexti heldur fjölda ánægjustunda. Á vefsíðum eins og Pinterest eru fjölmargar sniðugar lausnir og myndir af gróðurhúsum sem nýtt eru í alls kyns óhefðbundnum tilgangi. Hver veit nema þú finnir upp á einhverju sniðugu sem engum hefur dottið í hug áður! Að minnsta kosti er skjólið sem gróðurhúsið veitir okkur kærkomið og tækifæri til að eiga sér notalegt afdrep í seilingarfjarlægð heillandi.


Takk fyrir að lesa :-)




Recent Posts

See All
bottom of page