Gufusoðnir Víkingar
Þegar þú hugsar um gufubað, sérð þú fyrir þér lítinn sætan trjákofa lengst inni í skandinavískum skógi þar sem berrassað fólk af öllum kynjum situr og svitnar saman? Kannski ekki alveg, en gufuböð eru sannarlega hluti af norrænni menningu.
Finnar hafa eignað sér það að hafa fundið upp gufubaðið og meira að segja þá er sauna/sána finnskt orð. Sennilega eina finnska orðið sem allir þekkja. Gufuböð eiga sér þó langa sögu í fleiri Norðurlöndum eins og til dæmis Svíþjóð. Fyrstu norrænu gufuböðin voru líklega tekin í notkun fyrir meira en 2000 árum síðan. Þau voru á þeim tíma í holum sem voru grafnar inn í fjallshlíð, kannski svipað og torfkofarnir okkar. Það má því vel vera að víkingarnir í Skandinavíu hafi hlýjað sér í gufuböðum eftir langar kaldar siglingar. Í dag eru gufuböð orðin mun nútímalegri og það er kannski ekki skrítið að gufuböð séu vinsæl í köldum löndum. Hér á landi má finna gufuböð við flestar sundlaugar, í heilsulindum og víðar. Sumir búa svo vel að vera með gufubað heima hjá sér og er þá algengt að það sé innandyra. Gufubað getur þó verið frábær viðbót við baðsvæði garðsins og getur skapað ævintýralega stemningu í garðinum.
Vannýtt svæði garðsins fá hlutverk
Frændur okkar í Svíþjóð og Finnlandi eru mikið fyrir gufuböð, sumir vilja meina að sána sé á hverju einasta finnska heimili. Það er kannski örlítið ýkt, en það er algengt í Skandinavíu að sjá litla sæta trjákofa sem smíðaðir eru sem gufuböð. Þar er gufan oftast búin til í litlum ofnum með steinum en einnig eru til viðarkynnt gufuböð. Sánakofi í skandinavískum stíl tæki sig vel út í íslenskum bakgarði. Það er tilvalið að nýta svæði norðanmegin við hús fyrir gufubaðið þar sem ekki er þörf á sól eða skjóli. Það þarf samt að spá í tengingu við baðhergi, eða að minnsta kosti sturtu eða útisturtu. Vandamálið við frístandandi útisturtur er að lagnir eiga það til að frjósa. Það má leysa með því að hafa sturtuna á útvegg íbúðarhússins, eða smáhýsis, þá mögulega norðurveggnum. Áttu sumarbústað sem stendur við stöðuvatn eða litla á? Byggðu lítinn sánakofa og þá getur þú hoppað út í ískalt vatnið á milli gufubaða. Heit og köld böð til skiptis eru sögð frábærlega holl fyrir blóðrásina. Besti parturinn er þó að það bíður upp á að monta sig af víkingskap sínum við vini og kunningja.
Gufubað sem hluti af baðsvæði
Í görðum þar sem nú þegar er skipulagt baðsvæði er gufubað frábær viðbót. Heitur og kaldur pottur og smáhýsi sem rúmar gufubað, sturtu og litla setustofu, hversu fullkomið? Ég hugsa að ég myndi eyða meiri tíma úti í garði en inni í húsi. Sé smáhýsið ekki stærra en 15 fm og staðsett þrjá metra frá bæði húsi og lóðarmörkum, þá þarf ekki einu sinni að sækja um byggingarleyfi fyrir því. Það má þó tengja bæði rafmagn og vatnsleiðslur í smáhýsið og því hægt að koma þessu öllu saman fyrir þar. Vatn fyrir sturtuna og rafmagn fyrir hitara í setustofuna. Það má ekki gleyma því að flott baðsvæði getur aukið verðmæti hússins. Garðurinn telst líka til þeirra fermetra sem við eigum en það er allt of algengt að þeir nýtist ekki nema örfáa daga á ári.
Hönnun gufubaðsins - sultuslakur Tolkien
Sánatunnur og sánahús eru tvær útgáfur af gufuböðum sem hægt er að kaupa tilbúin hjá Funa, www.funi.is, og á www.sauna.is. Þessi tvö fyrirtæki bjóða upp á alls kyns fallega hönnun og ég mæli með að skoða myndirnar á heimasíðunum. Við frágang í kringum gufubaðið eru líka ýmsir frumlegir möguleikar í boði. Til dæmis er hægt að nota sánatunnu og moka yfir hana til þess að búa til hobbitaholu. Það þarf bara að passa að strompurinn standi upp úr. Þessi hönnun líkist eflaust upprunalegu norrænu gufuböðunum sem voru grafin inn í fjallshlíð. Það er vitað að Tolkien fékk ýmislegt lánað úr norrænni trú og menningu þegar hann skrifaði heiminn þar sem hobbitarnir búa. Hver veit nema að hugmyndin að hobbitaholunum hafi kviknað þegar Tolkien sat sultuslakur í sænsku eða finnsku gufubaði og lét sig dreyma um Víkinga.
Við hönnun gufubaðsins er líka gott að spá í hvar gluggi gufubaðsins er staðsettur. Bæði er gaman að hafa fallegt útskýni úr gufubaðinu og svo getur lýsingin inni í gufubaðinu varpað ævintýraljóma á umhverfið. Þá gæti verið gott að skipuleggja svæðið með það í huga.
Ævintýrin enn gerast
Gufubað getur verið góð leið til að nýta hluta garðsins sem ekki var í notkun áður. Sé það staðsett við uppsprettu á köldu vatni, hvort sem það er kaldur pottur eða náttúrulegt vatn, gefur það möguleika á að styrkja æðakerfið. Ekkert baðsvæði eða smáhýsi er fullkomnað án gufubaðs. Ættum við að taka nágranna okkar í Skandinavíu til fyrirmyndar og stefna á sána á hvert heimili hér á landi? Finnar áttuðu sig á því hversu mikil snilld gufuböð eru fyrir 2000 árum síðan. Einhvern veginn þurfti að halda hita í Víkingunum. Hvort þau hafi spilað eitthvert hlutverk í því að skapa ævintýraheim Tolkiens er hans að svara fyrir en það er skemmtilegt að leyfa sér að trúa því. Að minnsta kosti getur rétt hönnun gufubaðs hjálpað þér að skapa þinn eigin ævintýraheim í bakgarðinum heima.
Takk fyrir að lesa :-)
Comments