top of page

Hvað er pergóla?

Updated: Mar 17, 2023


Pergóla, ljósasería, smáhýsi, trépallur og heitur pottur.
Glæsileg pergóla í nútímalegum stíl

Pergóla er mannvirki reist úr staurum og láréttum sperrum. Segja má að hún sé eins konar opið þak. Aðaltilgangur pergólunnar er að skapa tiltekinn stíl og mynda ákveðna stemningu innan garðsins. Hlutverk hennar getur verið margvíslegt en algengast er að nota pergólu til að mynda skugga, brjóta vind eða skerma fyrir forvitnum augum. Pergólur eru algeng sjón erlendis en þær urðu fyrst þekktar á Íslandi þegar Stanislas Bohic fór að hanna hér íburðarmikla garða með þéttum gróðri.


Hér ræða Björn og Sjöfn Þórðar um kosti þess að hafa pergólu í garðinum


Tilgangur pergólunnar


Pergólur eru notaðar til að skapa rými og erlendis gjarnan til að búa til skugga. Þetta eru þægileg svæði með eins konar þaki og því verður tilfinningin eins og maður sé í herbergi eða stofu. Við ákveðnar aðstæður er hægt að nota pergólu til að mynda skjól og eins má hengja ýmislegt í hana eins og seríur og hitara. Það má setja þak yfir hluta hennar og velja henni staðsetningu eftir því sem best hentar t.d. yfir heitan pott.


Hvar er best að staðsetja pergóluna?Þegar pergólu er valinn staður er algengt að staðsetja hana beint upp við íbúðarhúsið og er þá hægt að ganga beint út úr húsinu og undir pergóluna. Mér finnst sem hönnuði mjög skemmtilegt að velja pergólu þannig stað að kvöldsólin nái að skína undir hana og grípa þannig síðustu sólargeislana áður en kveikt er á ljósaseríunni.


Það getur komið fallega út að setja pergólur yfir skilgreind svæði í garðinum eins og heitan pott eða „borðstofuna“. Það getur einnig haft gagnlegan tilgang einsog að minnka sýn inn á þessi svæði.Pergóla sem skjólgjafi


Við ákveðnar aðstæður er hægt að nota pergólu til að mynda skjól en einungis sem stuðningur við húsvegg, áfastan skjólvegg eða gróður. Pergólan ein og sér myndar ekki skjól fyrir veðri og vindum. Setja má þak yfir hluta hennar og þá er algengt að nota plexigler eða plastbáru sem bæði eru mjög létt efni.


Pergóla með segldúk, sólbekkir, garðhúsgögn og trépallur.
Vegleg pergóla meðfram húsi, segldúkur í þaki myndar gott skjól

Skuggamyndun yfir heitasta tímann


Viðarbekkur, skjólgirðing, trépallur, pergóla og smáhýsi.
Kósí á bekknum í kvöldsólinni í skjóli pergólu

Erlendis má gjarnan sjá fólk sitja í skugga undir pergólu og í mörgum löndum Evrópu er algengt að setja pergólur upp á leiksvæðum til að mynda skugga eða hálfskugga yfir heitasta tímann. Hér á landi má hugsa sér að nýta pergólu til að ná sér í skuggsælan stað seinnipartinn á sólríkum dögum, lesa í bók eða slappa af. Það er gert með því að snúa bitunum á þann veg að skuggi myndist á ákveðnum tímum dags.


Suðræn stemning í garðinum


Erlendis er algengt að sjá pergólur þaktar gróðri og mynda þannig jafnvel gróðurgöng. Rómantískar, ítalskar villur koma þar sterkt upp í hugann. Þá eru sperrur og bitar yfir gangveginum sem gróðurinn getur leitað eftir eða krækt sér í. Hér á landi eru það klifurplöntur eins og skógartoppur sem sjá má fyrir sér í þessu hlutverki. Hægt er að setja grindur á hlið pergólunnar og búa þannig til tækifæri fyrir plönturnar til að vaxa upp eftir og jafnvel yfir pergóluna.


Pergóla, trépallur, skjólveggir, klifurplöntur og garðhúsgögn.
Hér eru snúrur eða vírar á einni hlið pergólunnar fyrir klifurjurtir

Pergólan í garðinum bíður upp á alls kyns lausnir fyrir þá sem hafa gaman af að skreyta og skapa stemningu í garðinum. Ef garðveisla er í uppsiglingu getur svæðið undir pergólunni verið miðpunktur, það má hengja ýmislegt í hana eins og seríur og hitara. Svo má líka hugsa sér að hengja blómapotta með hengiplöntum og annað skraut í þær. Þannig getur pergólan myndað suðræna stemningu, lengt íverustundirnar í garðinum og nýst bæði til afslöppunar og partíhalda.Skyggt á innsýn


Það getur verið góð lausn að nota pergólu til að skerma fyrir innsýn í garðinn. Þar sem mögulegt er að horfa ofan í garðinn, t.d. frá nágranna á efri hæðum, getur pergólan spilað lykilhlutverk við að brjóta sjónlínur frá þessum gluggum eða svölum. Sem dæmi þá nýtur heitur pottur sem blasir við frá gluggum efri hæðar góðs af því að reist sé yfir hann pergóla. Ekki er þá lengur hægt að horfa niður í pottinn en áfram er útsýni upp í stjörnubjartan himininn.


Takk fyrir að lesa og njótið góðu stundanna í garðinum :-)

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page