top of page

Hvernig er útieldhúsið skipulagt?

Updated: Mar 17, 2023


Það kannast allir við það hvernig besta partýið á það til að myndast inni í eldhúsi, hvort sem veislan var skipulögð í kringum máltíð eða ekki. Að borða kvöldmat utandyra er eitthvað sem við gerum ekki oft hér á landi en það er ákveðin upplifun, útlandafílingur, sem fylgir því. Hvernig væri að sameina þetta tvennt og halda einstakt útieldhúspartý?

Hér skoða Björn og Sjöfn Þórðar fallegt útieldhús með glæsilegu útsýni


Útieldhúspartý - ógleymanleg kvöldstund.


Með fullbúnu útieldhúsi er það og svo ótalmargt fleira mögulegt. Ímyndaðu þér frídag um sumar, einn af þessum dögum þar sem sólin skín og sólbaðssvæðið í garðinum er í notkun allan daginn. Þegar kvöldmatartíminn nálgast tímir enginn að fara inn enda sólin ennþá hátt á lofti. Þú ert búinn að bjóða fólki í mat en sem betur fer þarf enginn að fórna sér í það að standa einn inni að elda meðan hinir hafa það áfram gott á pallinum. Þegar gestirnir mæta tekur ilmur af grillmat á móti þeim og þeir fá sér sæti í kringum grillið. Þeir fá jafnvel aðeins að narta og smakka á forréttunum jafnóðum og þeir eru tilbúnir. Humar, rækjur, ýmiskonar grænmeti og smáréttir hverfa eins hratt og þeir birtast. Aðalrétturinn, lambasteikin, er búin að malla á lægsta hita inni í ofni í allan dag. Eftir forréttinn er gestunum boðið að setjast inn í borðstofu og gæða sér á hægelduðu kjötinu. Þegar allir eru saddir færist partýið aftur út í garð þar sem boðið er upp á kaldan bjór úr kælinum sem er innbyggður í útieldhúsið. Grillaðir bananar með súkkulaði eru líka í boði fyrir þá sem enn hafa pláss fyrir mat. Kveikt er á hitalömpunum og svo er setið úti og spjallað langt fram á kvöld.


Útieldhús, heitur pottur, pergóla, hellur og gróðurhús
Skemmtilegt útieldhús undir skyggni sem tengist við pergólu

Hvar er best að staðsetja útieldhús?

Hvort sem útieldhúsið er uppi í sumarbústað eða í garðinum heima þá er lykilatriði að það sé staðsett í skjóli fyrir regni og vindum, til dæmis undir skyggni. Sé vel að því staðið er mögulegt að elda og borða úti sama hvernig viðrar, jafnvel allt árið um kring. Best er að útieldhúsið snúi mót vestri til þess að kvöldsólin nái að skína undir skyggnið. Tenging við og fjarlægð frá húsi skiptir líka miklu máli. Sé hægt að hafa útieldhúsið beint við hliðina á því sem er innandyra þá er það mikill kostur, að minnsta kosti er heppilegt ef stutt er þar á milli. Það er betra að stutt sé í ísskáp og borðstofu, sérstaklega ef partýið á að færast inn og út á þægilegan hátt. Við hönnun útieldhúss þarf að gera ráð fyrir svæði til þess að undirbúa matinn, elda hann, bera hann fram og aðstöðu til þess að þrífa eftir á.


Matjurtagarðurinn ætti líka að vera nálægt útieldhúsinu. Það á að vera stutt að fara til að ná í heimaræktaða grænmetið sem á að grilla, það gerist ekki meira lókal. Það er ekki bara hentugt að hafa kryddjurtirnar nálægt, þær geta líka verið falleg skreyting fyrir útieldhúsið.



Útieldhús, fastir bekkir, skjólveggir og trépallur
Útieldhús með vinnuborði og föstum bekk

Gasalega flott kolagrill

Margir Íslendingar eru með grill úti á palli en það er algengt að það vanti vinnuborð. Væri aðstaðan betri þá fengi grillið sennilega meiri notkun. Það er ekki alveg sama stemningin í matarboðinu ef gestgjafinn þarf að hoppa út til að grilla steikina á meðan gestirnir eru inni. Í útieldhúsi geta allir hjálpast að við að undirbúa aðalrétt og meðlæti, elda matinn og borða hann.


Þegar kemur að búnaði þá er grillið aðalmálið. Margir kjósa gasgrill og í þeim flokki eru Weber grillin mjög þekkt. Hægt er að fá gasgrill í öllum stærðum og gerðum, grill með hellu fyrir sósuna, með teini til að grilla heilan kjúkling, steina til að baka pizzur á og margt fleira. Gasgrillin eru einfaldari í notkun heldur en kolagrillin, en sumir halda því fram að það sé ekki alvöru grillbragð af matnum nema grillað sé með kolum. Kolagrill geta líka verið mjög flott og þægileg í notkun, til dæmis „eggin“ frá The Big Green Egg. Hönnun þeirra gerir það að verkum að hægt er að stýra hitanum mjög nákvæmt. Þau eru til í mörgum stærðum og eru einstaklega falleg. Náskylt grillinu er svo eldofninn en í honum er til dæmis hægt að baka gómsætar pizzur og brauð. Ooni Koda pizzaofninn er gasofn sem er léttur og getur staðið á steinplötunni á vinnnuborði útieldhússins. Þeim sem er alvara með útieldhúsinu fá sér tvö grill eða bæði grill og eldofn!




Hönnun og aðrar græjur

Þú vilt hanna útieldhúsið þannig að það fái sem mesta notkun. Mikilvægt er að hafa vinnuborð og helst barborð með stólum. Þar geta gestir setið og spjallað við kokkinn, fylgst með eldamennskunni og verið plataðir til að taka þátt í henni.


Útieldhúsinnréttingin ætti að innihalda lítinn kæli, grænmetisgeymslu, skápa fyrir krydd og borðbúnað, snaga fyrir grilláhöldin, eldrauðu grillsvuntuna og pottaleppana. Nú fást Röshults útieldhús hjá Eirvík en þau eru samsett úr einingum og þola allskyns veðurfar. Vaskur kæmi sér vel til þess að vinna með matvæli eins og fisk og annað sjávarfang. Kælir úti hefur þann kost að þá myndast meira pláss í kælinum inni. Fyrir utan matinn sem á að grilla ætti útikælirinn að geyma drykki fyrir gesti og þá er gott að staðsetja hann við endann á innréttingunni svo gestirnir komist auðveldlega í hann. Þeir mega ekki verða þyrstir þó þú sért að sýna þeim hæfileika þína við eldamennskuna.


Útieldhús, Eirvík, Röshults.
Röshults útieldhús frá Eirvík

Standi til að borða úti getur verið gott að hafa sérstakan borðbúnað fyrir útiveislur. Það eru þá þykkari diskar sem þola meira hnjask, til dæmis diskar úr þykkum leir. Það má líka tengja rafmagn í útieldhúsið svo hægt sé að hafa rafmagnshitara, falleg ljós, útihátalara og jafnvel hrærivélina úti. Fyrir pizzaveisluna er hægt að hnoða deigið úti og henda beint í eldofninn.


Útieldhús, trépallur, steyptir veggir, rennihurð og garðhúsgögn.n
Glæsilegt útieldhús umlukið gróðri

Partíið heldur áfram í útiborðstofunni

Hvernig væri að vera sá eini í vinahópnum sem heldur alvöru garðveislur? Þar sem þægindin eru í fyrirrúmi og hægt að gleyma sér úti fram eftir öllu? Alveg eins og í eldhúsi eða borðstofu innandyra eiga borð og stólar heima í útieldhúsinu. Góðir hitalampar eru nauðsynlegir, hvort sem það eru rafmagnshitarar sem festir eru í skyggnið eða stórir gaslampar sem standa sér, eða jafnvel bæði. Það er betra að hafa of marga möguleika á að hita upp útisvæðið en of fáa! Hér á landi er algengast að nota rafmagnshitara. Rafmagnstenglana má líka nota fyrir ljósaseríur til að skapa stemningu og útihátalara til þess að halda partýinu gangandi.


Kannski verður næsta þriggja rétta grillveisla haldin alfarið utandyra.


Takk fyrir að lesa :-)



Recent Posts

See All
bottom of page