top of page

Straumar og stefnur 2023

Updated: Mar 31, 2023

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð er ekki seinna vænna að setja sig í spor völvunnar og spá fyrir um helstu strauma og stefnur í garðhönnun árið 2023. Síðasta ár var alveg magnað og við höfum aldrei séð jafn marga garða byggjast upp með hugmyndafræði Urban Beat að leiðarljósi. Sú hugmyndafræði snýst um að hanna þannig að það sé jafn skemmtilegt að vera úti í garði og að vera inni, helst allan ársins hring.




Við höfum unnið með ýmsar nýstárlegar hugmyndir en fyrir fjórum árum leit Kampavínsveggurinn dagsins ljós en það er fastur veggur í barborðshæð, þar sem hægt er að leggja frá sér diska, bolla og kampavínsglös. Á síðasta ári var þessi hugmynd tekin enn lengra og byggður garður þar sem þema var kampavín og samkvæmi. Sá garður fékk nafnið Kampavínsgarðurinn enda í eigu þeirra sem eiga og reka Kampavínsfélagið. Kampavínsgarðurinn var svo tekinn sérstaklega fyrir í þætti Sjafnar Þórðar, Matur og Heimili þar sem ferlinu öllu voru gerð góð skil. Þar var eigendum, hönnuði og verktökum fylgt eftir allt frá fæðingu hugmyndar að fyrstu garðveislunni.



Í hönnun og framkvæmdum ársins 2022 var áberandi hvað garðeigendur vildu fá tækifæri til eyða meiri tíma í garðinum. Þeir vildu aukna möguleika til afþreyingar og tók hönnun mið af því. Þannig verður hægt að nýta garðinn mjög vel að sumri, en einnig á öðrum tímum. Þar spila stærstu rulluna smáhýsi, skýli, gróðurhús, geislahitarar, heitir pottar, sánur og útieldhús. Þannig er hægt að slappa af, stunda íþróttir og elda góðan mat í garðinum þótt sólin sé ekki hátt á lofti.


Hér á eftir förum við yfir nokkra þætti sem við spáum að verði áberandi í hönnun garða og framkvæmdum við þá árið 2023.


Kryddjurtabar og Trúnóbekkur

Fyrir marga er Kampavínsveggurinn gömul frétt en hann kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar ég flutti heim frá Svíþjóð með aragrúa af skemmtilegum hugmyndum. Þetta er í raun bara venjulegur veggur í sömu hæð og barborð, með góðri borðplötu og breidd sem rúmar snittur, bjórkönnur og að sjálfsögðu kampavín, kælifötu og glös. Kampavínsveggurinn fékk á síðasta ári tvo arftaka og munu þeir verða áberandi á því næsta. Annar þeirra mun breyta talsvert möguleikum til matargerðarlistar utandyra en það er Kryddjurtabarinn. Kryddjurtabarinn er upphækkað gróðurbeð útfært þannig að auðvelt sé að sjá þar um nokkrar vel valdar kryddjurtir. Staðsetning er að sjálfsögðu í nágrenni útieldhússins og því auðvelt að grípa lófafylli af uppáhalds blaðkryddinu og strá yfir steikina eða salatið.


Hinn arftaki Kampavínsveggsins er Trúnóbekkurinn sem fékk nafn sitt á aðalfundi Félags skrúðgarðyrkjumeistara þegar þeir fengu að skoða nýhannaðan garð í sýndarveruleika. Kampavínsgarðurinn varð fyrir valinu sem sýnidæmi í sýndarveruleika og þegar garðyrkju meistararnir settu upp sýndarhjálminn upphófst skemmtilegt samtal um þennan veisluvæna garð. Eitt af því sem prýðir garðinn er innbyggður bekkur með hallandi baki og sléttri syllu efst á bakinu. Þar má leggja frá sér glös, matardiska og annað gagnlegt. Eftri nokkra ummræðu fékk þessi bekkur nafnið „Trúnóbekkurinn“ en þeim þótti upplagt að nýta hann í lok veislunnar fyrir trúnaðarsamtöl en þá má leggja frá sér síðasta drykk kvöldsins á glasasyllunna. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi þróun og skemmtilegum útfærslum Trúnóbekksins á næsta ári.




Útieldhúsið á næsta stig




Fyrir 20 árum var nóg að finna skjólgóðan stað fyrir grillið og eiga góða hlíf til að skella yfir þegar það var ekki í notkun. Svo var það aðallega notað á sumrin og geymt inni í bílskúr yfir vetrartímann. Fyrir 10 árum færðist svo í aukana að grilla allt árið og þá þurfti að vera pláss fyrir grillið, smá vinnusvæði og stað til að geyma grillið eða skýla því á veturna. Í fyrra voru svo aðstæður fyrir grill og útieldhús hreinlega komnar á annað og hærra plan. Það þurfti að vera pláss fyrir gasgrill og kolagrill ásamt vinnuborði með góðu gólfplássi til að athafna sig. Þar átti einnig að vera pláss fyrir lítinn gasdrifinn pizzaofn og helst það stórt þak að svæðið rúmi pláss fyrir 4-6 mann borð til að snæða við. Þannig er ekkert mál að borða úti þegar aðeins dropar úr skýjum. Við spáum því að þessi þróun muni halda áfram og geymslur fyrir mat, vaskar, sambyggðar geymslur fyrir grillið og ýmis búnaður sem ekki hefur sést utandyra verði meira áberandi í útieldhúsum landsmanna.


Íþróttasvæði og fullbúið spa

Árið 2022 var árið sem dekur íslensku sundlauganna færðist inn í garðinn. Heiti potturinn hefur verið gríðarlega vinsæll síðustu áratugi en með áhrifum frá hinum norðurlöndunum og víðar hafa bæst við kaldur pottur, sauna og útisturta. Þannig er garðurinn af verða sannkallað spa-svæði. Með auknum vinsældum crossfit æfinga sem heilsubót verður krafan um æfingasvæði í garðinum algengara.



Sumir hafa svo útbúið lítið gervigrassvæði með lóðum, ketilbjöllum og öðrum lyftingabúnaði. Við sjáum fyrir okkur að á árinu verði íþróttahlutinn tekinn enn lengra. Í flestum görðum má reisa 15 m2 smáhýsi sem fólk hefur nýtt sér á ýmsan hátt. Það má t.d. sjá fyrir sér spinning hjól sem snýr að stórum útsýnisglugga og upphífingarstangir fyrir þá allra hörðustu. Svo má taka svæðið fyrir utan smáhýsið og þekja með tartanefni eða gervigrasi.



Krakkasvæði fyrir rólegri afþreyingu

Síðustu áratugi hefur verið ofuráhersla á tækifæri til ærslafullra leikja með rólum, köstulum, og öðrum hreyfiglöðum leiktækjum. Fyrir nokkrum árum tókum við eftir að trampólínin, sem lengi hafa verið vinsælustu leiktækin í görðum, voru ekki bara notuð í hopp og ærsl, heldur áttu krakkarnir það til að liggja hlið við hlið á mjúkri hoppudýnunni horfa upp í himinn og kjafta um heima og geima. Þannig fæddist sú hugmynd að kannski þurfa krakkar líka að fá tækifæri til þess að „hanga“ eins og fullorðna fólkið. Þarna koma rólubekkurinn og hengirólan klassíska sterkt inn.

Það sem bættist svo við er Krakkaholan. Krakkaholan er óformlegur lítill bekkur með þaki til að hlífa við rigningu. Öll hlutföll miða við einstaklinga í minni kantinum en inn í holuna má hrúga litríkum púðum til þess að kúra sig inn í með iPad eða jafnvel góða bók.


Hönnun í sýndarveruleika og bráðum í útvíkkaðan veruleika

Í kringum 2010 byrjuðum við að hanna garðana okkar í þrívídd og ekki liðu mörg ár þangað til allir viðskiptavinir fengu þrívíðar útfærslur af garðinum. Árið 2019 byrjuðum við að vinna með tölvuleikjatækni og sýndarveruleika og 2022 kláruðum við að færa öll verkefni yfir á þetta form. Þannig fá allir viðskiptavinirnir okkar tækifæri til að upplifa garðinn í sýndarveruleika og aðgang að svæði á netinu þar sem hægt er að ganga í gegnum garðinn líkt og í tölvuleik. Sýndarveruleiki er þannig orðin venjulega leiðin til þess að sýna verkefnin okkar.


Á þessu ári munum við halda áfram að þróa þessa tækni og það mun ekki líða langur tími þar til hægt verður að skoða garðsvæðin í viðbættum veruleika. Þannig mun viðskiptavinurinn geta beint myndavél snjallsímans að svæði i garðinum og sjá á skjánum hvernig það svæði mun líta út. Hvort þetta muni líta dagsins ljós á næst ári er óvíst en það er ekki langt í það.


Enn minna viðhald og endingarbetri efni

Fyrir flesta snýst garðurinn meira um afþreyingu en garðyrkju. Þá skiptir máli að viðhald garðsins sé létt en í íslenskri veðráttu mæðir vel á öllum svæðum hans. Úrvalið af pallaklæðningu hefur aukist verulega en þar koma sterk inn efni sem búið er að hitameðhöndla og eins efni úr þjöppuðum lífmassa eins og bambus. Hampur hefur einnig verið nefndur sem heppilegur lífmassi í pallaefni en við bíðum spennt eftir að byrgjar útvegi slíkt. Hellur munu fá uppreisn æru en þær hafa fengið pínu óorð á sig vegna gróðurs sem stundum sest í fúgurnar. Nú býður BM Vallá upp á VarioSand sem er eitt þeirra fjölmörgu efna sem hefur verið notað í fúgur á hellum erlendis en þetta efni er polymereblandað og límist ofan í fúgurnar. Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir að Steypustöðin fylgi fast á eftir með sambærilegt efni fyrir sína viðskiptavini.



Svo bjóða nokkur fyrirtæki upp á útiflísar en þar fer Vídd fremst í flokki með stórar ítalskar flísar, sem að sjálfsögðu eru fúgaðar með polymereblönduðum sandi til að fá grjótharða og þétta fúgu sem ekki vex gróður í.


Lóðréttir garðar

Einnig viljum við spá því að lóðréttir garðar verði algengari. Við höfum skoðað möguleika á að vera með grindur á veggjum þar sem hægt er að hengja blómapotta og gróðurker. Það verður því hægt að rækta matjurtir og skrautjurtir á mun minna svæði en áður. Þessu má líka koma fyrir inni í eða utan á smáhýsum og gróðurhúsum og fá þannig ferskar kryddjurtir allan ársins hring. Ekki er ólíklegt að þessu muni einnig fylgja sjálfvirkur vökvunarbúnaður.

Sannarlega spennandi þróun!


Sturtugarður

Í upphafi árs varð fyrsti sturtugarðurinn okkar til á teikniborðinu. Hugmyndin er fengin frá Ástralíu þar sem fara má í sturtu eða bað í aflokuðum garði með pálmatrjám eða öðrum fallegum gróðri. Í sturtugarði má einnig stunda íhugun eða yoga - allt án þess að eiga á hættu að vera truflaður. Sannkallaður sælureitur í garðinum!


Japanskt hundaklósett

Viljum við ekki allt það besta fyrir ferfættu vini okkar? Að okkar mati er japanskt hundaklósett algjörlega brilljant bæði fyrir eigendur og hundana sjálfa. Um er að ræða afgirt svæði þakið möl, grasi, gervigrasi eða trjákurli sem auðvelt er að hreinsa. Stiklur fyrir mannfólkið, fallegt tré sem hægt er að pissa utan í, gróður og grjót til skrauts og allir eru sáttir.


Sauna með ljósadýrð

Það er einstök tilfinning að fara í gufubað og við höfum fundið leið til að auka enn við þá upplifun. Fjölbreytt ljós og mild tónlist sem hefur róandi áhrif á hugann lyftir dvölinni í gufubaðinu upp á hærra plan en í þessari gufu líkir loftið eftir stjörnuhimni. Ljósin er síðan hægt að stilla í takt við tónlistina, hvort sem það er rokk, diskó eða ljúf hugleiðslutónlist.



Recent Posts

See All
bottom of page